„Miðflokksmenn og aðrir eru mjög ánægðir með mín störf í borgarstjórn og ég stefni einbeitt á það að gefa kost á mér sem næsti borgarstjóri,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í viðtali við fréttaþáttinn 21 á Hringbraut sem sýndur verður í kvöld.
Brot úr viðtalinu hefur verið birt á vef Hringbrautar en þar er haft eftir Vigdísi að hún ætli sér að auka fylgi flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar sem fara fram á þarnæsta ári. Segir hún að fyrsta val hennar í samstarfi sé Sjálfstæðisflokkurinn en hún útiloki þó enga aðra flokka fyrir fram.
Vigdís ræðir einnig þá ákvörðun sem tekin var á aukalandsþingi Miðflokksins á laugardag að leggja niður embætti varaformanns flokksins. Vigdís var ein í framboði til varaformanns en hún segist ekki líta svo á að breytingarnar hafi verið gerðar til að halda henni frá helstu völdum í flokknum.
„Nei, alls ekki,“ segir hún en bætir þó við að hún sé komin á þann stað í stjórnmálum að vilja vera í forystu. Þess vegna hafi hún ekki viljað taka sæti í flokksstjórn Miðflokksins. „Það heillar mig ekki að taka sæti í stjórninni því ég stefndi á það að verða varaformaður.“
Vigdís ræddi við Fréttablaðið um helgina þar sem hún lýsti vonbrigðum sínum með þá ákvörðun að leggja niður stöðu varaformanns flokksins.
„Mér finnst að þetta embætti eigi að vera til staðar innan flokksins. Ég vil ekki að Miðflokkurinn standi veikari fótum en aðrir flokkar út af þessu,“ sagði hún meðal annars.