Loft­steinninn sem sprakk yfir Ís­landi í gær­kvöldi var svo­kallaður víga­hnöttur og var hann hugsan­lega í tuttugu til þrjá­tíu kíló­metra hæð yfir landi þegar hann sprakk. Þetta segir Sæ­var Helgi Braga­son á Twitter-síðu sinni og á­ætlar hæðina út frá lýsingu á því hve langt leið á milli blossans og drunanna.

Fjöl­margir urðu varir við drunur í gær en jarð­skjálfta­mælingar á Suð­vestur­landi sýndu stuttan en greini­legan púls milli klukkan 22:44 til 22:48. Miðað við lýsingar fólks á Suður­landi á drununum er talið að víga­hnötturinn gæti hafa verið rúmur metri að þver­máli. Ef það reynist rétt var hann tölu­vert stærri en sam­bæri­legir hnettir sem hafa sést hér á landi.

„Að drunur heyrist með víga­hnöttum það er ekki al­gengt. Víga­hnettir sjást alltaf annað slagið en get talið á fingrum annarrar handa hversu oft ég hef heyrt ein­hverjar drunur fylgja svona víga­hnöttum og hvað þá svona á­berandi þannig ég eigin­lega pínu öfunda fólkið sem varð vitni af þessu í gær,“ segir Sæ­var og bætir því við að maður sé svo vanur því að heyra drunur í flug­vélum að hann hafi vel getað heyrt drunurnar í víga­hnettinum án þess að veita þeim at­hygli.

Í sam­tali við Mbl.is lýsir Sæ­var Helgi víga­hnöttum.

„Víga­hnett­ir eru í raun og veru bara loft­­stein­ar sem springa í and­rúms­­loft­inu okk­ar í nokk­urra tuga kíló­­metra hæð. Miðað við lýs­ing­arn­ar sem bár­ust frá fólki í gær um það hve­nær bloss­inn sást og hve­nær drun­urn­ar heyrðust bend­ir það til þess að hann hafi sprungið ef ég ætti að giska í kring­um 20 kíló­­metra hæð eða svo, kannski tæp­­lega 20 kíló­­metra hæð. En þetta er bara gróf á­gisk­un,“ seg­ir hann.

Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari.
Fréttablaðið/Hanna

Gæti hafa verið stærri

Sæ­var segir að hnötturinn gæti jafn­vel hafa verið stærri, eða nokkrir metrar í þver­mál, en viður­kennir þó að það sé mjög gróf á­giskun út frá tak­mörkuðum upp­lýsingum.

„Af einni ann­arri lýs­ingu að dæma, þar sem við­kom­andi lýs­ir því að hafa fundið fyr­ir lít­illi högg­bylgju, hef­ur þessi víga­hnött­ur verið nokkr­ir metr­ar í þver­­mál, en það er bara mjög gróf á­gisk­un út frá þeim lýs­ing­um sem ég hef heyrt núna. En því betri og ná­­kvæm­ari lýs­ing­ar sem fólk send­ir því betra,“ segir Sæ­var.

Sæv­ar seg­ist sjálf­ur séð fjöl­marga víga­hnetti en segist þó geta talið þau skipti á fingrum annarrar handar þar sem hann hafi heyrt á­líka drun­ur með komu víga­hnatta.

Hefð­bundin stjörnu­hröp á stærð við sand­korn

Sam­kvæmt Sæ­vari eru þau stjörnu­hröp sem fólk kann­ast einna helst við vana­­lega í 80 til 100 kíló­metra hæð og að­eins á stærð við sand­korn.

„Það er all­ur gang­ur á þessu en hefð­bund­in stjörnu­hröp eru eins og lít­il sand­korn, en bjart­ari stjörnu­hröp eru frá því að vera á stærð við litla stein­völu eða jarðar­ber upp í kannski tenn­is­­bolta. En miðað við hvernig þetta virðist hafa gerst í gær þarf steinn­inn að vera tals­vert stærri og þá erum við ör­ugg­­lega að tala um svona metra að þver­­máli eða rúm­­lega það,“ segir Sæ­var.

Sæv­ar segir að senni­lega hafi myndast mik­ill blossi þegar steinn­inn sprakk en vegna þess hversu bjart var í gær­­kvöldi hafi birt­an frá sól­inni dregið veru­­lega úr sýni­leik bloss­ans.

Kristín Jóns­dóttir, hóp­stjóri náttúru­vár hjá Veður­stofunni, svaraði færslu Sæ­vars Helga á Twitter og birti sínar eigin jarð­skjálfta­mælingar á högg­bylgju loft­steinsins. Hún segist vissu­lega vera í fríi en óskar engu að síður eftir myndum af víga­hnettinum frá sjónar­vottum.