Ég er nýfluttur heim í Garðabæ og keyri fram hjá Vífilsstaðatúni á hverjum degi og finnst þetta frábær staðsetning. Ég er búinn að tala fyrir þessu áður innan hópsins því þarna voru frábærir tónleikar Of Monsters and Men þannig að við vitum að þetta er hægt,“ segir athafnamaðurinn Jón Bjarni Steinsson, sem vill koma með tónlistarhátíðina Secret Solstice á Vífilsstaðatún.

Secret Solstice-hátíðin fór fyrst fram sumarið 2014 og hefur haft sitt heimili í Laugardalnum. Í bréfi sem Jón Bjarni sendi Garðabæ og fjallað var um í Fréttablaðinu í gær segir að Laugardalur sé frábær staður til að halda tónlistarhátíð, en borgaryfirvöld séu svolítið sein til svars.

Langar boðleiðir vandamálið

„Vandamálið hefur alltaf verið hversu langar allar boðleiðir eru innan Reykjavíkur. Það hefur gert alla vinnu í kringum skipulagningu og framkvæmd mjög flókna og erfiða. Þá hefur það lengi legið fyrir að fara ætti í framkvæmdir á svæðinu. Það er mjög óþægileg staða að vera í sem skipuleggjandi, að geta ekki gengið að því vísu ár frá ári að þú getir notað sama svæði. Ég, sem uppalinn Garðbæingur, hef lengi haft augastað á Vífilsstaðatúni sem heimili fyrir hátíðina, það svæði ásamt Klambratúni og Laugardal eru einu svæðin á stórhöfuðborgarsvæðinu sem geta borið hátíð eins og Secret Solstice,“ segir í bréfinu.

Jón Bjarni bendir á að hátíðin hafi sótt um að vera á Klambratúni árið 2017. „Það var einhverja mánuði að velkjast um í kerfinu innan borgarinnar og svo fengum við nei fyrir skömmu. Ég var búinn að heyra að þeim sem unnu að tónleikum Of Monsters and Men forðum daga fannst frábært að vinna með Garðabæ. Auðvitað spilar það inn í.“

Hátíðin flókin í framkvæmd

Hann segir að hátíðin sé flókin í framkvæmd og taki tæpt ár í skipulagningu. Hún hefur eðlilega legið í dvala vegna faraldursins en mun koma sterk til baka á nýjum stað. Jón Bjarni bendir á einn augljósan kost að sínu mati og það sé að fá bílastæði séu við Vífilsstaðatún og því þurfi að koma fólkinu til og frá svæðinu. Þar með myndast engin hópamyndun eins og stundum gerðist í Laugardalnum. Þá sé þetta þægilega langt frá íbúabyggð.

„Fyrir mig sem Garðbæing, Stjörnumann og nágranna þá er þetta fallegt svæði með mikla möguleika. Stærsti kosturinn við svæðið að mínu mati er að þarna er smá brekka. Þá þarf ekki að standa allan tímann. Maður þekkir það frá Þjóðhátíð að þetta breytir aðeins upplifuninni. Ég reikna með að Garðabær vilji aðeins meiri upplýsingar, enda er þetta stór hátíð og stór viðburður og kannski ekki mikið af upplýsingum í erindinu sem ég sendi. Vonandi heldur samtalið áfram og vonandi gengur það vel. Það er nægur tími því við stefnum á að halda hátíðina aftur í júní 2022.“

Jón er að opna veitingastað í húsinu sem er verið að byggja gegnt Náttúrufræðistofnun og hefur því mörg járn í eldinum. „Ég var kominn með alveg nóg af miðbæ Reykjavíkur og flutti heim í Garðabæ. Ég er reyndar að gera nánast það sama en núna í mínu bæjarfélagi og vonandi næ ég að lífga upp á bæinn með Secret Solstice.“