Viðvera Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í samkvæminu í Ásmundarsal á Þorláksmessu í fyrra, sem lögreglan leysti upp vegna sóttvarnabrota, fór aldrei fyrir siðanefnd Alþingis.

Ásmundarsalsmálinu umdeilda virðist lokið, eigendur hafa verið sektaðir og lögreglumenn áminntir en ráðherrann sem var viðstaddur samkvæmið hefur ekki mætt neinum afleiðingum vegna málsins.

Málið kom upp rétt í kjölfar þriðju bylgju COVID-19 og Landspítali hafði nýlega aflétt neyðarstigi og starfaði á hættustigi. Fjölmargir kölluðu eftir afsögn Bjarna, þar á meðal deildarlæknir á Landspítalanum sem sagði athæfið skammarlegt brot á sóttvarnareglum sem hefði getað hleypt af stað svokölluðum „ofurdreifiviðburði“ hér á landi.

Ásta R. Jóhannesdóttir, fyrrverandi ráðherra og formaður siðanefndar Alþingis.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson / GVA

Málið aldrei reist

Ásta R. Jóhannesdóttir, fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra og formaður siðanefndar Alþingis, staðfestir að málið hafi aldrei verið sent til siðanefndar.

„Siðanefnd tekur ekki sjálf upp mál en það er forsætisnefnd Alþingis sem sér um að koma málum til siðanefndar. Það verður því að ræða við forseta Alþingis,“ segir Ásta í samtali við Fréttablaðið.

Er þá hringt í Steingrím J. Sigfússon, fráfarandi forseta Alþingis. „Nei, það var aldrei reist neitt mál vegna þess. Það barst aldrei,“ segir Steingrímur. Aðspurður hvers vegna ekki, svarar hann:

„Einhver þarf að bera málið fram og senda það inn. Forsætisnefnd hefur ekki frumkvæðisrétt í málum sem slíkum en tekur bara við þeim erindum sem henni kunna að berast og það barst aldrei neitt erindi. Málið var sem sagt aldrei reist.“

Hver hefur frumkvæðisrétt?

„Hver sem er.“

Þá þingmenn?

„Nei, bara hver sem er sem telur sig hafa aðild að máli eða hafa tilefni til að senda erindi, það þarf ekki að vera þingmenn. En það kom aldrei upp,“ svarar Steingrímur.

Vísir greindi frá því fyrir nokkru að lögreglan hafi heldur ekki rannsakað ráðherrann. Aðstoðarmaður Bjarna staðfesti að hann hafi aldrei verið yfirheyrður vegna málsins og sé ekki á meðal þeirra sem boðið hefur verið að greiða sekt.

Nefndin gagnrýndi færsluna en Persónuvernd sá ekkert að

Málið má rekja til dagbókarfærslu sem lögreglan sendi á fjölmiðla á aðfangadagsmorgun en þar kom fram að ráðherra hafi verið viðstaddur samkvæmi þar sem sóttvarnarlög voru brotin. Dagbókarfærslan hljóðaði svo:

„Lögregla var kölluð til vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur. Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista“.

Nefnd sem hef­ur eft­ir­lit með störf­um lög­reglu (NEL) ákvað sjálf að taka til athugunar dagbókarfærsluna frægu en málið hefur mikla umræðu um persónuverndarsjónarmið og rétt almennings til upplýsinga.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu sendi frá sér tilkynningu í kjölfar umfjöllunarinnar á aðfangadag um að mis­brestur hafi orðið til þess að per­sónu­greinan­legar upp­lýsingar hafi verið sendar úr dag­bókinni. Vert er að nefna að Persónuvernd taldi ekki tilefni til að aðhafast en Vigdís Eva Líndal, staðgengill forstjóri Persónuverndar, sagði að almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.

NEl taldi vís­bendingar um að dagbókarfærslan hafi verið efnis­lega röng og ekkert til­efni hafi verið til upp­lýsinga­gjafar af slíku tagi. Ekki er farið nánar út í hvað væri efnislega rangt við færsluna

Eigendur sektaðir fyrir að virða ekki grímuskyldu

Eig­endur Ás­mundar­salar sendu frá sér til­kynningu í síðustu viku þar sem fram kom að niður­staða lög­reglu­rann­sóknar vegna lit­stýningarinnar á Þor­láks­messu hafi leitt í ljós að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjölda­tak­markanir um­rætt kvöld né reglum um opnunar­tíma. Að­stand­endum bjóðist til að ljúka máli vegna brots á grímu­skyldu með sektar­gerð.

Eigendur hafa frá upphafi haldið því fram að ekki hafi verið um samkvæmi að ræða þótt að áfengi hafi verið við hönd. Þetta hafi verið sölusýning og því hafi salurinn talist sem verslun að þeirra mati og því ekki brot á fjöldatakmörkunum. „Enn frem­ur máttu versl­an­ir hafa opið til klukk­an 23 á Þor­láks­messu, eins og víða var í miðborg Reykja­vík­ur,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni eigenda.

Ekki samkvæmi, heldur sölysýning, segja Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, eigendur Ásmundarsalar.

María Káradóttir hjá ákærusviði lögreglunnar segir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu geta staðfest að um sé að ræða sektir vegna brota forsvarsmanna á reglum um notkun andlitsgrímu.

Eigendur sögðu enn fremur að niðurstaða lögreglu staðfesti að dagbókarfærslan hafi verið efnislega röng. Það er ekki alveg rétt, lögreglan hefur sjálf ekkert gefið út varðandi það heldur var það Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) sem skilgreinir sig sem sjálfstæða og óháða stjórnsýslunefnd, sem nefndi þetta í skýrslu sinni um starfshætti lögreglumanna í téðu máli.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu um að málið væri komið í réttan farveg.

„Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að vísbendingar séu um að dagbókarfærsla hafi verið efnislega röng telur embættið mikilvægt að taka fram að fyrstu upplýsingar lögreglu sem fengust á vettvangi voru á þann veg að um einkasamkvæmi væri að ræða og var það því skráð sem slíkt í dagbók lögreglu. Hins vegar leiddi frekari rannsókn málsins í ljós að svo var ekki. Markmið með birtingu upplýsinga úr dagbókarfærslum er að fjalla um verkefni lögreglu eins og þau birtast á hverjum tíma. Eðli máls samkvæmt geta mál skýrst eða tekið aðra stefnu eftir því sem rannsókn miðar áfram. Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að háttsemi tiltekinna starfsmanna embættisins geti talist ámælisverð þá hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekið það til meðferðar og sett í farveg. Að öðru leyti getur embættið ekki veitt upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna.“