Reynir Arn­gríms­son, for­maður Lækna­fé­lags Ís­lands segir að á­standið vegna við­varandi lyfja­skorts í landinu sé ó­venju slæmt um þessar mundir en Reynir var til við­tals í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þar kom fram að 74 lyf séu nú á bið­lista hjá Lfyja­stofnun. Það hafi til að mynda valdið því að nú séu notuð breið­virkari sýkla­lyf sem geti valdið lyfja­ó­næmi, vegna þess að skortur er á á­kveðnum tegundum sýkla­lyfja.

„Það hefur komið upp skortur til dæmis á á­kveðnum tegundum sýkla­lyfja og þá hefur þurft að grípa til breið­virkari lyfja sem getur valdið lyfja­ó­næmi,“ segir Reynir. Á­standið sé slæmt.

„Þetta hefur verið ó­venju slæmt undan­farið og virðist vera við­varandi skortur. Þetta hafa verið sjö­tíu til átta­tíu lyf eftir því sem okkur sýnist,“ segir Reynir sem segir jafn­framt að gamal­gróin lyf sem alla­jafna séu til sé líka farið að vanta.

Reynir segir að slíkur lyfja­skortur geti haft á­hrif á heilsu sjúk­linga þar sem oft sé um að ræða lyf sem sjúk­lingur eigi erfitt með að vera án. Hann segir að Lækna­fé­lagið muni taka málið upp á aðal­fundi fé­lagsins og gera at­huga­semd við frum­varps­drög lyfjalaga.

Margir þættir geti haft á­hrif á og valdið slíkum skorti um allan heim. „Eitt sinn varð til dæmis al­heim­skortur á lyfi því náttúru­ham­farir urðu á svæði þar sem fram­leiðslu­verk­smiðjan var.“