Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir það viðurkennt af lögregluyfirvöldum að það sé rökstuddur grunur um að flóttafólk í neyð misnoti kerfið. Þetta kom fram í sérstökum umræðum á Alþingi um stöðuna á landamærum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda.
„Það er viðurkennt af lögregluyfirvöldum og það er rökstuddur grunur um það að þetta kerfi sé misnotað, það er eitthvað sem við þurfum að passa. Það er áhyggjuefni okkar allra að taka utan um þetta fólk sem raunverulega þarf á vernd að halda og tryggja að það verði ekki fyrir því áreiti sem það verður fyrir í dag, meðal annars mansals,“ sagði Jón í pontu á Alþingi.
Þá segir hann mikilvægt að hafa í huga að verndarkerfið sé neyðarkerfi, fyrir fólk sem sætir ofsóknum í heimalandinu sínu eða á í hættu á dauðarefsingu eða pyntingum eða vanvirðandi meðferð.

„Fólk sem er að freista gæfunnar, fólk sem er í daglegu tali talað um sem efnahagslega flóttamenn í leit að betri lífsskilyrðum, á ekki erindi við verndarkerfið. Öll mín verkefni snúa að því að slá upp skjaldborg um verndarkerfið, einhvern merkilegasta samning sameinuðu þjóðanna.“
„Það er alveg ljóst að það er ákveðin misnotkun sem á sér stað í þessu kerfi,“ bætti hann við.
„Við erum hér áfram með mikla segla í okkar kerfi, sem dregur fólk til landsins, sem ég hef tæpt á hér, sem að við verðum að eyða út til þess að standa til jafns við þessi lönd.“
Hann segir Ísland ekki hafa sömu úrræði og önnur lönd í Evrópu. Hann segir þessi úrræði byggja á takmörkunum á ferðafrelsi, „en þetta er ekki eins og sumir vilja líkja hér við fangabúðir.“
Umræðurnar eru í gangi á þinginu og búist er við því að þær haldi áfram fram á kvöld.