Raila Odinga, sem tapaði forsetakosningum í Keníu samkvæmt lokatölum sem birtar voru á mánudaginn, neitar að viðurkenna ósigur. Samkvæmt niðurstöðum kjörstjórnar bar sitjandi varaforseti landsins, William Ruto, sigur úr bítum en Odinga segir niðurstöðuna markleysu.

Þetta var í fimmta sinn sem Odinga býður sig fram til forseta Keníu og ekki fyrsta skiptið sem hann neitar að viðurkenna ósigur. Atkvæðamunurinn milli Ruto og Odinga í ár var aðeins um eitt og hálft prósent.

Fjórir af sjö meðlimum kjörstjórnarinnar neituðu að ábyrgjast niðurstöðu kosninganna og vísuðu til þess að talningarferlið hefði verið ógegnsætt.