Kona sem fékk ranga niðurstöðu í skimun við leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 fær tugi milljóna króna í bætur. Krabbameinsfélagið hefur viðurkennt bótaskyldu í máli konunnar.
Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.
Konan fór fyrst í skimun árið 2018 en veiktist svo alvarlega á þessu ári. Þegar sýnið frá árinu 2018 var endurskoðað kom í ljós að hún hafði fengið ranga niðurstöðu. Hafði konan þróað með sér ólæknandi krabbamein. Fram hefur komið að líklegt megi teljast að hægt hefði verið að koma í veg fyrir veikindin ef rétt hefði verið unnið úr niðurstöðunum á sínum tíma.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar, segir að tryggingafélag Krabbameinsfélagsins hafi viðurkennt bótaskyldu í málinu.
„Þetta þýðir að það er viðurkennt að það hafi átt sér stað brotalöm hjá Krabbameinsfélaginu er varðar málefni umbjóðanda míns. Tryggingafélagið lítur svo á að Krabbameinsfélagið séu skaðabótaskylt vegna þessara mistaka,“ segir hann og bætir við að skaðabæturnar sem konan fær nemi tugum milljóna króna.
Í frétt RÚV í kvöld kom fram að málum ellefu kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hafi verið vísað til Embættis landlæknis. Í málum fjögurra þeirra hefur verið farið fram á skaðabætur.