Kona sem fékk ranga niður­stöðu í skimun við leg­háls­krabba­meini hjá Krabba­meins­fé­laginu árið 2018 fær tugi milljóna króna í bætur. Krabba­meins­fé­lagið hefur viður­kennt bóta­skyldu í máli konunnar.

Greint var frá þessu í kvöld­fréttum RÚV.

Konan fór fyrst í skimun árið 2018 en veiktist svo al­var­lega á þessu ári. Þegar sýnið frá árinu 2018 var endur­skoðað kom í ljós að hún hafði fengið ranga niður­stöðu. Hafði konan þróað með sér ó­læknandi krabba­mein. Fram hefur komið að lík­legt megi teljast að hægt hefði verið að koma í veg fyrir veikindin ef rétt hefði verið unnið úr niður­stöðunum á sínum tíma.

Sæ­var Þór Jóns­son, lög­maður konunnar, segir að trygginga­fé­lag Krabba­meins­fé­lagsins hafi viður­kennt bóta­skyldu í málinu.

„Þetta þýðir að það er viður­kennt að það hafi átt sér stað brota­löm hjá Krabba­meins­fé­laginu er varðar mál­efni um­bjóðanda míns. Trygginga­fé­lagið lítur svo á að Krabba­meins­fé­lagið séu skaða­bóta­skylt vegna þessara mis­taka,“ segir hann og bætir við að skaða­bæturnar sem konan fær nemi tugum milljóna króna.

Í frétt RÚV í kvöld kom fram að málum ellefu kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hafi verið vísað til Em­bættis land­læknis. Í málum fjögurra þeirra hefur verið farið fram á skaða­bætur.