Hin 47 ára gamla Jolly Thomas hefur viður­kennt að hafa eitrað fyrir sex fjöl­skyldu­með­limum sínum á fjór­tán ára tíma­bili með því að bæta blá­sýru út í matinn þeirra. Jolly, sem var vin­sæll með­limur sam­fé­lagsins í Koz­hik­ode, í suður Ind­landi, vildi að sögn lög­reglu hafa stjórn á fjár­hag og eignum fjöl­skyldunnar.

Lög­regla hóf rann­sókn á Jolly fyrr á þessu ári, eftir að mági hennar fór að gruna að hún hefði falsað erfðar­skrá for­eldra hans. Yfir­völd upp­götvuðu í kjöl­farið að Jolly hafi verið við­stödd við sex dauðs­föll innan fjöl­skyldunar á síðustu 14 árum. Fram að þeim tíma­punkti höfðu dauðs­föllin ekki vakið grun­semdir yfir­valda sökum tíma­ramma.

Eitraði fyrir tengda­fjöl­skyldunni

Sam­kvæmt lög­reglu var tengda­móðir Jolly fyrsta fórnar­lamb hennar en hún lést af völdum blá­sýru­eitrunar árið 2002. Árið 2008 lést síðan tengda­faðir hennar og skammt á eftir fylgdi eigin­maður hennar sem var myrtur árið 2011. Vitni sögðu eigin­manninn hafa látist eftir að hafa borðað karrý og hrís­grjón. Krufning sem gerð var á líki hans á sínum tíma stað­festi síðan mikið magn af eitruðum efnum í maga hans. Lög­regla taldi hins vegar að um sjálfs­víg væri að ræða.

Bróðir tengda­föður Jolly átti síðan að hafa látist eftir að hafa drukkið kaffi sem hafði verið bruggað með blá­sýru. Dauðsfall hans átti sér stað skömmu eftir að hann hafði krafist þess að lík­skoðun yrði gerð á líki frænda síns, eigin­manns Jolly.

Myrti tveggja ára barn til að ganga í hjóna­band

Lög­regla telur einnig að Jolly hafi myrt tveggja ára gamla dóttur frænda eigin­manns síns, Scaria Shaju, árið 2014. Tveimur árum seinna, árið 2016, á hún að hafa eitrað fyrir eigin­konu Shaju sem lést í kjöl­farið. Árið 2017 gengu síðan Jolly og um­ræddur Shaju í hjóna­band.

Shaju sagði í samtali við lögreglu ekki hafa vitað að Jolly stæði að baki dauða eigin­konu hans og dóttur en hann var hand­tekinn á­samt þriðja aðila í síðustu viku.

Lög­regla gróf upp lík fjöl­skyldu­með­limanna og stað­festi síðastliðinn föstu­dag að blá­sýru­eitrun hafi orðið þeim öllum að bana. Jolly viður­kenndi síðan í dag að hún bæri á­byrgð á öllum dauðs­föllunum.