Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hefur Íslandsbanki tilkynnt til Kauphallarinnar að bankinn hafi fengið í hendur frummat fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna athugunar á framkvæmd bankans á útboði Bankasýslunnar á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra. Í matinu kemur fram að FME telji að bankinn kunni að hafa brotið gegn ákvæðum laga og reglna sem gilda um bankann og starfsemi hans og er sáttaferli hafið.

Að Íslandsbanki taki nú þátt í sáttameðferð með FME er nánast viðurkenning á að lög hafi verið brotin. Sáttameðferð felur í sér að báðir aðilar séu sammála um sök, að sögn Helgu Völu Helgadóttur, lögmanns og þingmanns Samfylkingarinnar.

„Svona fúsk við stóra og mikilvæga gjörninga hefur mikil áhrif“

Helga Vala setur fyrirvara við að einu upplýsingarnar sem séu haldbærar í málinu sé að finna í tilkynningu frá Íslandsbanka sem lögum samkvæmt hafi þurft að tilkynna Kauphöllinni um málið. Of snemmt sé að spá fyrir silkimeðferð bankamannanna eins og borgarfulltrúi Sósíalista hélt fram að væri í uppsiglingu í gær. Ekki sé enn útilokað að einhver hluti málsins verði kærður til lögreglu.

Helga Vala segir málið ekki flokkspólitískt heldur varði það almannahagsmuni.

„Svona fúsk við stóra og mikilvæga gjörninga hefur mikil áhrif. Það hefur komið fram að starfsmenn bankans voru á meðal kaupenda og þeir létu fólk í sínu nánasta umhverfi vita af fyrirhugaðri sölu. Það hefur líka komið fram að þarna voru einstaklingar innan kaupendahópsins sem ekki uppfylltu skilyrði sem lagt var upp með,“ segir Helga Vala.

„Þetta er mjög alvarlegt, langtímafagfjárfestar, almenningur, grandvarir eigendur, þurfa nú að sæta því að bankinn þurfi að borga mjög háa sekt vegna lögbrota. Með því að valda þessu tjóni sem bitnar á eigendum þessa banka þá bitnar það einnig á hagsmunum okkar allra, þetta skapar ekki bara orðsporsáhættu fyrir íslenska fjármálakerfið heldur getur þetta mál líka haft áhrif á vexti og fjármál heimilanna í landinu öllu.“

Vísaði til þagnarskyldu

Upplýsingafulltrúi Seðlabankans vísaði til þagnarskylduákvæðis laga um Seðlabanka Íslands um að Seðlabankinn gæti ekki veitt upplýsingar um málið umfram það að staðfesta að fjármálaeftirlit bankans hefði haft til athugunar tiltekna þætti varðandi sölu ríkisins á eignarhlut í Íslandsbanka síðastliðið vor og að sú athugun stæði enn yfir.

FME hefur heimild til að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn lögum og reglu, óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Fjárhæð sekta ræðst meðal annars af alvarleika og tímalengd brots, samstarfsvilja hins brotlega og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Eins getur fjárhagsstaða og ábyrgð hins brotlega haft áhrif á fjárhæðina.

FME getur einnig lokið máli með sátt. Sé það gert í upphafi athugunar máls getur sektin numið allt að helmingi þess sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið. Sé sátt gerð á síðari stigum getur fjárhæðin numið allt að 70 prósentum af ætlaðri stjórnvaldssekt. FME metur á hvaða stigi mál er við gerð sáttar. Ætla má að þetta mál sé ekki á upphafsstigi enda hefur rannsókn FME staðið yfir um nokkurt skeið.

Sé brot meiriháttar kærir FME málið til lögreglu. Gefi brot tilefni til að draga í efa hæfni framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskylds aðila til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri, endurskoðar FME hæfi þeirra og getur það leitt til starfsloka.

Íslandsbanki neitaði í gær að upplýsa hvenær bankanum barst frummat FME. Fréttablaðið reyndi einnig að ná í forstjóra Íslenskra verðbréfa og Fossa markaða, sem voru umsjónaraðilar útboðsins ásamt Íslandsbanka en þeir svöruðu ekki skilaboðum áður en blaðið fór í prentun.