Læknirinn Abd Tharani er gestur á Læknadögum sem hefjast í dag. Hann mun fræða íslenskt heilbrigðisstarfsfólk um offitu sem sjúkdóm. Tharani, sem upprunalega kemur frá Sýrlandi, er innkirtlasérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Birmingham á Englandi.

Tharani segir nauðsynlegt að skilgreina offitu sem sjúkdóm og að viðeigandi meðferðarúrræðum sé beitt. Einnig að margir áhrifaþættir geti haft áhrif á sjúkdóminn, bæði utanaðkomandi og innri. Hann segir að offita sé ein helsta áskorun heilbrigðisvísinda á 21. öldinni og á síðastliðnum áratug hafi ekki eitt einasta land náð að fækka tilfellum.

„Margir neita að viðurkenna að offita sé sjúkdómur, þar á meðal læknar og stjórnmálamenn sem trúa því að þetta snúist aðeins um val hvers og eins,“ segir Tharani. „Rannsóknir sýna hins vegar að þetta sé langvarandi sjúkdómur og að bakslag sé algengt.“

Eitt helsta vandamálið við greiningu er að til sé fólk í yfirvigt sem sýni engin einkenni heilsubrests sem tengist offitu. „Af hverju ættum við að kalla þetta fólk sjúklinga? Jú, rannsóknir mínar í Birmingham og annarra sýna að þó að þessir einstaklingar sýni engin einkenni núna þá eru þeir í 60 prósent áhættu á að fá hjartasjúkdóma, 24 prósent áhættu á að deyja fyrir aldur fram og í aukinni áhættu á að fá aðra sjúkdóma, svo sem kæfisvefn og lifrarskemmdir,“ segir hann. „Þó að fólk líti út fyrir að vera heilbrigt er það ekki svo. Það er því rangt að segja því að allt sé í lagi því að þetta ástand er aðeins tímabundið og nauðsynlegt að grípa strax inn í.“

abd.jpg

Abd Tharani, innkirtlasérfræðingur hjá Háskólasjúkrahúsinu í Birmingham

Samkvæmt rannsóknum líði að meðaltali fimm ár frá því að heilbrigð manneskja með offitu sé farin að sýna einkenni sjúkdóma. Þegar fólk eldist hægist á allri líkamlegri starfsemi og þá sé fólk með offitu í enn meiri hættu.

Tharani segir offitu eiga sér margar ástæður, líkamlegar og sálrænar, og nauðsynlegt sé að skilja þær til þess að meðhöndla á réttan hátt. „Ástæðurnar geta verið líffræðilegar, erfðafræðilegar, sálrænar, tengdar meðgöngu, lyfjagjöf og loks umhverfisþættir svo sem félagslegur ójöfnuður, starfsumhverfi, auglýsingar og fleira,“ segir hann. „Þetta síðastnefnda er ekki á færi lækna að stjórna.“

Hvað varðar erfðir segir Tharani að til séu gen sem valdi offitu ein og sér, en þau séu mjög sjaldgæf. Algengara er að mörg gen hafi smávegis áhrif hvert fyrir sig. „Það fer eftir því hversu mörg slík gen þú hefur hversu þungur þú verður,“ segir hann.

Meðhöndlun er sinnt á ýmsa vegu, svo sem með lífsstílsinngripum, lyfjameðferð og skurðaðgerðum. Sumt virkar ekki fyrir alla og þá verður einnig að taka val sjúklingsins með inn í jöfnuna. „Sjúklingurinn verður líka að skilja að það er mjög erfitt að komast í kjörþyngd, sama hvaða aðferð er notuð. Innan við 1 prósent nær því. Þess vegna er nauðsynlegt að setja raunhæf markmið,“ segir Tharani.