Verðlagsstofa skiptaverðs tók saman upplýsingar um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stofnunni sem var gefin út vegna umræðu um vefþátt Samherja sem ber nafnið „Skýrslan sem aldrei var gerð.“

Þar var fullyrt að skýrsla frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, byggði umfjöllun sína árið 2012 um viðskipti Samherja meðal annars á, væri ekki til og að það hafi fengist staðfest hjá stofnuninni.

Excel-skjal en ekki skýrsla

Í yfirlýsingunni frá Verðlagsstofu skiptaverðs kemur fram að ekki hafi verið skrifuð sérstök skýrsla af þessu tilefni en að skjal hafi verið tekið saman með upplýsingum úr gagnagrunnum Fiskistofu.

Í skjalinu sé tafla sem sýni allan útflutning á karfa frá Íslandi yfir fyrrgreint tímabil eftir hvaða skip veiddi aflann, aflaverðmæti og magni. Gögnin hafi þó verið trúnaðarmál.

Nefndarmenn muna eftir að hafa séð skjalið

Í gær greindi Stundin frá því að Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, hafi fengið sömu gögn í hendur og Helgi Seljan byggði umfjöllun sína á.

Þá sagði Sævar Gunnarsson, fyrrverandi formaður Sjómannasambandsins, í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að hann hafi sjálfur séð þau gögn sem sögð voru fölsuð í þætti Samherja.

Bæði Sævar og Guðmundur áttu sæti í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna á sínum tíma.

Sjálfur sagði Helgi Seljan í yfirlýsingu í gær að gögnin væru til og hafi komið frá stofnuninni. Slíkt hafi fengist staðfest þó Verðlagsstofa skiptaverðs hafi ekki viljað staðfesta tilvist trúnaðargagnanna á sínum tíma.