Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gær að Bandaríkin viðurkenndu þjóðarmorð Tyrkja á Armenum árið 1915 sem slík - þjóðarmorð. Hann er fyrsti forseti Bandaríkjanna til að gera það en málið hefur lengi verið viðkvæmt.
„Bandaríska þjóðin veitir öllum þeim Armenum virðingarvott, sem týndu lífum sínum í þjóðarmorðinu sem hófst fyrir 106 árum í dag,“ sagði Biden í tilkynningu sinni í gær. „Handtaka armenskra leiðtoga og mikilmenna í Konstantínópel [nú Istanbúl] þann 24. apríl 1915 af ottómönskum yfirvöldum markaði upphaf þess þegar ein og hálf milljón Armena var gerð útlæg, slátrað eða send út í opinn dauðann í útrýmingarherferð.“
Í frétt CNN um málið segir að Biden hafi hringt í forseta Tyrklands, Erdogan, síðasta föstudag og látið hann vita af ákvörðun Bandaríkjanna um að viðurkenna þjóðarmorðin 24. apríl, í gær. Það var sá dagur fyrir 106 árum sem þjóðarmorðin hófust. CNN segir samtal forsetanna tveggja hafa verið afar stirt en í opinberum skýrslum Hvíta hússins um símtalið kemur ekkert fram um þetta málefni.

Kalla yfirlýsinguna popúlisma
Tyrkir hafa sjálfir gengist við morðunum en ávalt neitað að kalla þau þjóðarmorð. Tyrkir voru ósáttir við Bandaríkjamenn í gær; utanríkisráðherrann sagðist neita að viðurkenna ákvörðun Bidens og þá hefur tyrkneska utanríkisráðuneytið boðað bandaríska sendiherrann í Tyrklandi á fund sinn.
„Orð geta ekki breytt eða endurskrifað söguna,“ skrifaði utanríkisráðherrann, Mevlut Cavasoglu, á Twitter í gær. „Við þurfum ekki að læra um okkar eigin sögu af neinum öðrum. Pólitísk tækifærismennska er ein stærstu svik við frið og réttlæti. Við höfnum algjörlega þessari yfirlýsingu, sem er í öllu byggð á popúlisma.“
Þjóðarmorðin á Armenum árið 1915 eiga sér langa sögu. Rússar og Tyrkir höfðu lengi deilt um yfirráðasvæði í Kákasusfjöllum en eftir sigur Rússa í stríði ríkjanna árið 1914 sökuðu Tyrkir, sem þá kölluðust enn Ottómanar, Armena um að hafa svikið sig og gengið til liðs við Rússa.
Armenar voru þá sendir í útlegð, fluttir frá heimkynnum sínum til sýrlensku eyðimerkurinnar og fleiri svæða og skildir þar eftir til að svelta og deyja. Þar létust hundruð þúsunda Armena, ýmist úr sulti, sóttum eða myrtir af Tyrkjum. Armenar hafa sagt tölu látinna vera eina og hálfa milljón en Tyrkir hafa aftur á móti haldið því fram að aðeins þrjú hundruð þúsund hafi látist.