Í kvöld mun Bára Halldórsdóttir uppljóstrari eyða upptökum sín­um af sam­tali þingmanna Miðflokks­ins á barnum Klaustri. Persónuvernd úrskurðaði að upptökur hennar væru ólöglegar og ber henni að eyða þeim fyrir 5. júní. Í tilefni þess ætlar Bára að efna til viðburðar á Gauknum, þar sem hún mun eyða upptökunum í beinni fyrir framan áhorfendur. Viðburðinum verður streymt í beinni á Facebook. Gaukurinn býður upp á sérstaka drykki, óminnismjöð og samviskuskot, í tilefni þess.

Bára settist niður með blaðamanni Fréttablaðsins og ræddi á persónulegu nótunum um þennan viðburðaríka kafla lífs síns; upptökurnar sjálfar, afleiðingarnar, vonbrigði og þakklæti hennar í garð íslensku þjóðarinnar. Hún svarar spurningum um hvort hún eigi önnur afrit af upptökunum og hvort hún hafi hitt einhvern af Klaustursþingmönnunum eftir 20. nóvember 2018, þann örlagaríka dag.

Bára segir frá því að hún hafi aldrei hafa hlustað á upptökurnar í heild sinni. Það sem sitji sterkt eftir í henni séu ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem Bára lýsir í viðtalinu hér að neðan.

„Ég bjóst við því að Alþingi myndi vernda starfsmenn sína örlítið meira en mér finnst þeir hafa gert,“ segir Bára í samtali við Fréttablaðið.

„Það sem hefur gerst, sem ég er ógeðslega glöð með, er að það er fullt af fólki sem hefur dregist saman, svarað fyrir sig, séð tækifæri til þess að gera eitthvað gott úr, farið á Evrópuþing. Ég er alveg ótrúlega þakklát fyrir alla ástúðina sem ég hef upplifað í framhaldinu,“ segir Bára.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á viðtalið í heild sinni.