Hátt í 200 lögreglumenn og björgunarsveitarmenn taka nú þátt í leit að Modestas Antanavicius í Borgarnesi. Modestas er 46 ára gamall og hefur nú verið saknað í viku. Að sögn Jónasar Hallgríms Ottóssonar rannsóknarlögreglumanns hjá Lögreglunni á Vesturlandi er nú verið að fínkemba svæði sem áður hafði verið leitað á.
Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að 180 björgunarsveitarmenn séu skráðir í verkefnið. Hann gerir ráð fyrir því að leitað verði víða í Borgarnesi, við sjó og utan bæjarins.
Að sögn Jónasar er gert ráð fyrir því að leitað verði á meðan það er bjart og að hafist verði aftur á morgun ef ekkert finnst í dag. Lögreglan hefur síðustu vikuna biðlað til almennings í Borgarnesi að leita við hús sín og að skoða myndavélar. Hann segir þrátt fyrir það enga vísbendingar hafa borist lögreglu um mál Modestas.