Nýr forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur ekki setið auðum höndum á sínum fyrsta degi í embætti. Í dag hefur hann undirritað tíu forsetatilskipanir um hvernig eigi að takast á við COVID-19 undir nýrri stjórn og að hann krefjist þess að smitum verði fækkað.
Tilskipanirnar tíu eru taldar forsmekkur COVID-19 áætlunar Biden um hvernig eigi að fjölga bólusetningum og skimunum, hvernig eigi að opna skóla á ný og tryggja víðtæka notkun gríma meðal almennings. Til að tryggja það hefur, meðal annars, verið sett skylda innan Bandaríkjanna um að bera grímu við ferðalög. Tilskipunin gildir í flugvélum, skipum, almenningssamgöngum innan borga og lestum. Þá þurfa alþjóðlegir farþegar að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf áður en þau leggja af stað til Bandaríkjanna og fara í sóttkví við komu. Þá tilkynnti hann einnig um grímuskyldu á öllum eignum í ríkiseigu. Greint er frá á AP.
Þá fjallar ein tilskipunin um hvernig eigi að takast á við veiruna í samfélagi minnihlutahópa sem margir hafa orðið hvað verst út úr faraldrinum í Bandaríkjunum.
„Við komum okkur ekki í þessi vandræði á einni nótt og það mun taka okkur mánuði að snúa þessari þróun við,“ sagði Biden og bætti við að þrátt fyrir einbeittan vilja myndi það oft vera erfitt og lýsti því svo yfir að hjálpin væri á leiðinni. „Til þjóðar í biðstöðu segi ég, og er skýr: Hjálpin er á leiðinni.“
Vill bólusetja 100 milljónir á 100 dögum
Biden hefur lofað að vera harðari en forveri sinn í að koma böndum á veiruna og segir í umfjöllun AP um málið að hann eigi eftir að mæta mörgum hindrunum þar sem veiran sé í góðri dreifingu í flestum ríkjum landsins. Þá verði einnig að taka tillit til þess hversu hægt gangi að bólusetja og til þeirrar óvissu sem ríkir um hvort að Repúblikanar muni aðstoða hann við að koma efnahags- og kórónuveiruviðbragsðpakka sínum í gegnum þingið.
Biden hefur einnig sett sér það markmið að bólusetja 100 milljónir manns á fyrstu 100 dögunum hans í embætti. Hann hefur fyrirskipað uppsetningu 100 bólusetningarstöðva og vill að lyfin verði aðgengileg í gegnum apótek frá og með næsta mánuði.

Endurnýjað samstarf við WHO
Helsti heilbrigðissérfræðingur Biden, Anthony Fauci, tilkynnti um endurnýjaðan stuðning Bandaríkjanna við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, en Trump dró Bandaríkin úr samstarfi við stofnunina. Fauci sagði að stofnunin myndi fá að fullu það fjármagn sem Bandaríkin hefðu styrkt þau um áður.