Kristrún Frostadóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar hefur fengið afsökunarbeiðni frá Viðskiptablaðinu, eftir að pistlahöfundurinn Týr notaði „ósmekklega myndlíkingu“ um fylgisaukningu Samfylkingarinnar.
Í umtöluðum pistli var tekin fyrir fylgisaukning Samfylkingarinnar og var henni líkt við „ótímabært sáðlát“
„Myndlíkingin var með öllu óboðleg og til þess fallin að særa. Tý þykir afar miður að hafa misboðið lesendum með vanhugsuðum skrifum og biður Kristrúnu og lesendur alla innilegrar afsökunar,“ segir Týr í afsökunarbeiðninni og bætir við að Kristrún sé mesta efni Samfylkingarinnar í langa hríð.
„Týr gekk of langt með skrifunum en vill þó árétta að ætlunin var ekki að særa eða misbjóða. Þessi skrif komu ekki frá slæmum stað, þótt ýmsir flautuþyrlar hafi reynt að nýta tækifærið til að væna Tý og Viðskiptablaðið í heild sinni um annarlegar hvatir,“ segir Týr.
Í gær baðst ritstjóri Viðskiptablaðsins, Trausti Hafliðason afsökunar á fyrirsögninni „Ótímabært sáðlát“ og sagði að samlíkingin hafi verið léleg. Bað ritstjórnin velvirðingar og breytti fyrirsögninni í vefútgáfu blaðsins.