Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir laun hafa hækkað gríðarlega á síðustu þremur árum, eða frá síðustu kjarasamningslotu. Segir hún að ekki hafi verið innistæða fyrir kauphækkunum þeirra kjarasamninga sem nú eru að renna út og fjöldi fyrirtækja hafi undanfarið þurft að grípa til fjölda uppsagna.

Guðrún var gestur í Vikulokunum á Rás 1 í dag ásamt Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, þar voru kjaramálin til umræðu, en fjöldi kjarasamninga renna út á næstu mánuðum.

„Laun hafa hækkað gríðarlega mikið á þessum samningstíma sem nú er. Kaupmáttur launþega er 25 prósent hærri en hann var árið 2015 og þetta er staðreynd. Kaupmáttur lægstu launa er þrjátíu prósent hærri en hann var 2015,“ sagði Guðrún. „Þannig að í síðustu kjarasamningum hækkuðu laun verulega, mun meira en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og við eigum í samkeppni við.“

Guðrún segir atvinnurekendur hafa, í síðustu kjarasamningslotu, spennt bogann til hins ítrasta og talið sig með því að greiða ákveðið gjald inn í norrænt samningalíkan.

„Við gáfum út innistæðulausan tékka sem var ekki innistæða fyrir hjá mörgum fyrirtækjum og við höfum þurft að súpa seyðið af því og það hafa verið fjöldauppsagnir,“ segir Guðrún og tekur sem dæmi fjöldauppsögn hjá prentsmiðjunni Odda sem sagði upp hátt í 90 manns fyrr á þessu ári. „Það er ekki sjálfgefið að störf séu hér á landi og þegar að við missum frá okkur samkeppnishæfnina þá erum við að missa störf.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir mikilvægast að bæta stöðu þeirra launalægstu og því legði Efling til að krónutöluhækkun lægstu launa yrði látinn ganga upp launastigann. „Þegar það kemur að launahækkunum hafa margir látið eins og kröfur okkar um 425 þúsund króna lágmarkslaun séu svo brjálæðislegar að þær komi úr hugarheimi fólks sem gangi ekki heilt til skógar.“

Sólveig Anna tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni fyrr í dag þar sem hún gagnrýnir Guðrúnu fyrir að ræða um stéttleysi í íslensku samfélagi. „Í Vikulokunum sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins að einn af helstu kostum íslensks samfélags hefði verið stéttleysið. Ég verð að viðurkenna að ég varð eiginlega orðlaus. Mér fannst ótrúlegt að fullorðin manneskja væri að halda þessu fram. Afþví að þetta er svo augljóslega ósatt. “