Sex greindust innanlands í gær og þar af var einn utan sóttkvíar við greiningu. Við­komandi sem greindist utan sótt­vkíar var við gos­stöðvarnar í Geldingadal í vikunni.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að enn sé verið að greina ný tilfelli innanlands og muni það halda áfram næstu daga. Hann segist jafnframt hafa áhyggjur af þessu eina smiti sem greindist utan sóttkvíar í gær.

„Þetta er aðili sem tengist ferðamennsku í kringum gosstöðvarnar. Þegar maður horfir á þann mikla fjölda sem hefur komið þar daglega undanfarna daga og þennan mikla troðning sem er í kringum svæðið hefur maður vissulega áhyggjur af smithættu við þessar aðstæður," segir Þórólfur.

„Ég vil hvetja fólk til að slaka aðeins á að heimsækja gosstöðvarnar núna á meðan við erum að reyna að ná tökum á þessum faraldri. Það getur hæglega komið upp stór útbreiðsla í kringum þennan troðning sem þarna er," bætir Þórólfur við.

Hann segir jafnframt að þetta eina smit sem greindist utan sóttkvíar í gær geti verið merki um það að veiran sé útbreiddari en talið er. Ekki sé búið að greina uppruna smitsins og því ekki vitað hvort viðkomandi hafi smitast á gosstöðvunum.

Smit tengjast Laugarnesskóla

Raðgreining sýnir að önnur smit sem hafa greinst síðustu daga tengjast öll og eru þau rakin til grunnskóla og íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Flest­ir eru komn­ir í sótt­kví í tengslum við skólanna og vonast Þórólfur til að þeir sem greinist næstu daga verði í sóttkví.

Hvetur alla til að mæta í bólusetningu

Bólusetning með bóluefni AstraZeneca hefst á ný í dag eftir að tekið var ákvöðrun um að bólusetja einstaklinga 70 ára og eldri með efninu hérlendis á miðvikudaginn. Einstkalingar fæddir 1948 og fyrr hafa verið boðaðir í bólusetningu í Laugardalshöllinni í dag.

Aðspurður segist Þórólfur ekki vita til þess að fólk hafi verið tvístígandi við að mæta í bólusetningu í dag en segir að það verði fróðlegt að sjá hvað gerist í dag.

„Það er mjög mikilvægt að fólk mæti í bólusetningu. Þetta er mjög gott bóluefni, niðurstöður rannsókna og tilkynningar sem hafa komið um þessar alvarlegu aukaverkanir hafa bara sést hjá fólki yngra en 60 ára. Áhættan á aukaverkunum er gríðarlega lítil og rannsóknir hafa sýnt að bóluefnið er mjög virkt hjá þessum hópi sem við ætlum að bólusetja með efninu."