Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, varar fólk við að fara á gosstöðvarnar strax, og segir að nú sé unnið að því að gera aðgengi betra.

„Við biðjum til fólks að fara mjög varlega. Þetta er mjög erfið ganga og þetta er í raun miklu lengri ganga en var að gosstöðvunum í fyrra. Og um erfiða leið að fara,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag og bætti við „Þannig þetta er ekki fyrir nema mjög vel undirbúið fólk að fara, sem er löngum gönguferðum,“

Þá sagði Víðir að nú væri verið að skoða og vinna að því að gera aðgengi betra og sagði að fólk gæti auðveldlega beðið með að sjá gosið. „Þetta er þannig gos að ég held að maður sé ekki að missa af neinu fari maður ekki í dag.“

Víðir greindi jafnframt frá því að um það bil átta þúsund símar hefðu fengið viðvörunarskilaboð í dag vegna eldgossins. Hann sagði því ljóst að þúsundir manna væru í grennd við gosið.

„Í dag sendum við út SMS þar sem við vorum að fólk við að mæta á staðinn. Þar sem vorum að meta stöðuna, og við erum í raun enn þá að meta hana. Það voru um það bil átta þúsund símar sem fengu þessi skilaboð, þannig það eru einhverjir þúsundir manna þarna á svæðinu. Helmingurinn er með erlend símanúmer.“