Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði við upphaf upplýsingafundar almannavarna að almannavarnir hafi fengið upplýsingar um það að bæði börn og fullorðnir séu að fá öfgafull og rasísk skilaboð vegna hópsýkinganna sem komu upp. Hann sagði fólkið nærri allt koma frá tilteknu landi.

„Við höfum oft talað um að veiran sé andstæðingurinn og það ætlar enginn að smitast eða smita annan,“ sagði Víðir.

„Rasísk og mjög ljót skilaboð,“ sagði Víðir Reynisson.

Hann sagði mikilvægt að dæma ekki stóran hóp fyrir það sem fáir hafa gert.

„Ekki dæma alla fyrir eitthvað sem að örfáir hafa gert,“ sagði Víðir og minnti á að þegar hópsýking kemur upp þá er það vegna þess að okkur hefur ekki tekist að fækka smitleiðum og vísaði til myndskeiðs almannavarna um hvernig eigi að rjúfa smitleiðir.

„Við erum í þessu saman, sama hvaðan við komum. Við erum öll almannavarnir,“ sagði Víðir að lokum.

Upplýsingafundur almannavarna stendur enn yfir og hægt er að horfa á hann hér að neðan.