Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, var í dag bólu­settur með bólu­efni Jans­sen í bólu­setningar­mið­stöðinni í Laugar­dals­höll.

Víðir hefur verið eitt þekktasta and­lit CO­VID við­spyrnunnar undan­farið eitt og hálft ár sem einn af með­limum hins góð­kunna þrí­eykis, á­samt Þór­ólfi Guðna­syni, sótt­varna­lækni, og Ölmu Möller, land­lækni.

Víðir fékk að finna fyrir veirunni á eigin skinni þegar hann greindist með CO­VID-19 í lok nóvember 2020. Hann varð nokkuð veikur og þurfti meðal annars að leggjast inn á spítala en jafnaði sig þó fljótt og var snúinn aftur til starfa um þremur vikum síðar.

Haft var eftir Víði að það væri ekkert mál að fá sprautuna, enda fag­fólk að verki, og hann væri glaður að vera loks kominn með bólu­setningu.

Við­vera lög­reglu­þjónsins góð­kunna vakti þó ekki sér­lega mikla at­hygli í salnum og að sögn ljós­myndara Frétta­blaðsins voru sumir í röðinni sem furðuðu sig á við­veru fjöl­miðla í Laugar­dals­höll.

Fréttablaðið/Ernir
Fréttablaðið/Ernir
Fréttablaðið/Ernir