Heilsu Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hefur hrakað undanfarna daga en hann var kallaður inn á Covid-göngudeild Landspítalans í morgun. Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Almannavarna staðfestir þetta í samtali við RÚV. Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að Víðir sé kominn heim á ný.

Víðir greindist með Covid-19 á miðvikudaginn í síðustu viku. Hann var nokkuð veikur í síðustu viku en að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, staðgengils Víðis á meðan hann er í einangrun, var hann farinn að hressast um helgina.

Líðan hans hefur farið versnandi eftir helgi en í morgun var ákveðið að kalla hann inn á spítala til að læknir gætu fylgst nánar með honum.

Jóhann K. segir í samtali við RÚV að bakslag hafi komið í veikindi Víðis á miðvikudaginn sem hafi síðan ágerst. „ Hann hóstar mikið og hefur hann verið flokkaður sem „gulur” af læknunum, þar sem grænn er besta ástandið, svo gult og rautt verandi í mikilli hættu. Gulir sjúklingar gætu þurft á innlögn að halda," segir Jóhann.

Tíu dagar frá því Víðir greindist

Samkvæmt Rögnvaldi Ólafssyni, yfirlögregluþjóni er Víðir kominn heim á ný. Rögnvaldur segir yfirlögregluþjóninn ekki í lífshættu.

Víðir sé með hita og slæman hósta. „Ég talaði við hann í morgun og hann var endalaust hóstandi og er með íferð í lungunum. Þetta er eitthvað sem margir kannast við sem fengið hafa COVID að þegar þetta er komið í lungun er þetta orðið leiðinlegt.“

Tíu dagar eru frá því að yfirlögregluþjónninn greindist. Þann 23. nóvember greindist kona hans með COVID-19 og fór hann í sóttkví. Hann greindist svo degi síðar og er nú að upplifa bakslag.

Víðir var hress þann 28. nóvember síðastliðinn en hafði verið verri 27. nóvember að því er Rögnvaldur sagði þá í samtali við Fréttablaðið.

Vika er nú liðin og ljóst að Víðir er nú að upplifa bakslag í veikindum sínum. Víðir hefur undanfarið hálfa árið verið í framlínu þríeykisins svokallaða sem stýrt hefur viðbragði almannavarna gegn heimsfaraldri COVID-19 hér á landi.

Fréttin var uppfærð kl. 14:57.