Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, er kominn heim til sín í einangrun eftir að hann greindist með COVID-19 í dag. Víðir segir í samtali við Fréttablaðið að smitrakning gangi enn yfir enn að það sé þó vitað að hann hafi smitast af annarri manneskju í fjölskyldu sinni.
„Það er búið að fara mjög vel yfir þetta og skima í kringum okkur og það hefur ekkert komið í ljós enn þá. Þetta virðist vera eitt af þessum tilviljanakenndu smitum,“ segir Víðir.
Hann segir að ekki megi gleyma því hversu lúmsk veiran getur verið.
„Þetta er eins og hvert annað verkefni. Það getur hver sem fengið þetta og spyr ekki að neinu. Hún er lævís og lúmsk þessi veira, eins og við höfum alltaf sagt. Þannig maður var undirbúinn, eins og hver annar, að geta fengið þetta,“ segir Víðir um líðan sína með að hafa smitast af veirunni.
Spurður hvort hann viti á hvaða stigi veikindanna hann sé segist hann í það minnsta vera einkennalaus og að það eigi eftir að koma í ljós.
„Ég fór í skimun í dag og þá kom þetta í ljós,“ segir Víðir.
Víðir segir að hann sé enn í vinnu á meðan hann er ekki lasinn en að staðan verði metin. Spurður hvort hann verði viðstaddur upplýsingafund almannavarna á morgun segist hann ekki hafa verið kominn svo langt. Það sé enn óákveðið.
„Það verður að koma í ljós. Við erum bara að vinna í þessu og maður verður að hlýða læknunum,“ segir Víðir að lokum.
Alma og Þórólfur líka í sýnatöku
Smit kom upp í nærumhverfi Víðis síðdegis á mánudag og í kjölfarið fór hann í sóttkví. Jafnframt fór hann og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller, landlæknis og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis í sýnatöku. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld. Frá þessu var greint í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í dag.
Þar segir einnig að í ljósi þess að sýni frá Víði hafi reynst neikvætt á mánudag þyki ekki ástæða til þess að hans nánasta samstarfsfólk fari í sóttkví.
Áður hafði Víðir farið í sóttkví í september síðastliðnum eftir að hafa verið í samskiptum við einstakling sem talinn var vera mjög smitandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.