Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, er kominn heim til sín í ein­angrun eftir að hann greindist með CO­VID-19 í dag. Víðir segir í sam­tali við Frétta­blaðið að smitrakning gangi enn yfir enn að það sé þó vitað að hann hafi smitast af annarri mann­eskju í fjöl­skyldu sinni.

„Það er búið að fara mjög vel yfir þetta og skima í kringum okkur og það hefur ekkert komið í ljós enn þá. Þetta virðist vera eitt af þessum til­viljana­kenndu smitum,“ segir Víðir.

Hann segir að ekki megi gleyma því hversu lúmsk veiran getur verið.

„Þetta er eins og hvert annað verk­efni. Það getur hver sem fengið þetta og spyr ekki að neinu. Hún er læ­vís og lúmsk þessi veira, eins og við höfum alltaf sagt. Þannig maður var undir­búinn, eins og hver annar, að geta fengið þetta,“ segir Víðir um líðan sína með að hafa smitast af veirunni.

Spurður hvort hann viti á hvaða stigi veikindanna hann sé segist hann í það minnsta vera ein­kenna­laus og að það eigi eftir að koma í ljós.

„Ég fór í skimun í dag og þá kom þetta í ljós,“ segir Víðir.

Víðir segir að hann sé enn í vinnu á meðan hann er ekki lasinn en að staðan verði metin. Spurður hvort hann verði við­staddur upp­lýsinga­fund al­manna­varna á morgun segist hann ekki hafa verið kominn svo langt. Það sé enn ó­á­kveðið.

„Það verður að koma í ljós. Við erum bara að vinna í þessu og maður verður að hlýða læknunum,“ segir Víðir að lokum.

Alma og Þórólfur líka í sýnatöku

Smit kom upp í nærumhverfi Víðis síðdegis á mánudag og í kjölfarið fór hann í sóttkví. Jafnframt fór hann og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller, landlæknis og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis í sýnatöku. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld. Frá þessu var greint í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í dag.

Þar segir einnig að í ljósi þess að sýni frá Víði hafi reynst neikvætt á mánudag þyki ekki ástæða til þess að hans nánasta samstarfsfólk fari í sóttkví.

Áður hafði Víðir farið í sótt­kví í septem­ber síðast­liðnum eftir að hafa verið í samskiptum við einstakling sem talinn var vera mjög smitandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.