Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra hefur greinst með COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Smit kom upp í nærumhverfi Víðis síðdegis á mánudag og í kjölfarið fór hann í sóttkví. Jafnframt fór hann og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller, landlæknis og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis í sýnatöku. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld.

Víðir fór aftur í sýnatöku í dag og reyndist sýni frá honum vera jákvætt. Hann er nú kominn í einangrun en er ekki sagður finna fyrir einkennum. Fram kemur í tilkynningunni að í ljósi þess að sýni frá Víði hafi reynst neikvætt á mánudag þyki ekki ástæða til þess að hans nánasta samstarfsfólk fari í sóttkví.

Áður hafði Víðir farið í sótt­kví í septem­ber síðast­liðnum eftir að hafa verið í samskiptum við einstakling sem talinn var vera mjög smitandi.