Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, á afmæli í dag en hann er 53 ára gamall. Af því tilefni færði Anna Birna Jensdóttir, stjórnarmaður hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, honum köku.
Anna Birna afhenti honum kökuna á daglegum upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag
„Þetta er frá öllum framlínustarfsmönnum sem starfa á öllum þessum hjúkrunarheimilum landsins sem telja marga tugi og frá íbúunum sem horfa á sjónvarpsstjörnurnar, þríeykið alla daga klukkan tvö. Það eru allir límdir við sjónvarpið. Við ætlum að þakka fyrir okkur,“ sagði Anna Birna þegar hún færði Víði gjöfina.
Víðir sem hefur staðið í ströngu síðustu mánuðina sagðist vera afar þakklátur fyrir þessa gjöf. Þá sagði yfirlögregluþjónninn að þessi hlýi hugur í hans garð framkallaði tár þegar hann tók við þessum þakklætisvotti.
„Ég fæ nú bara tár í augun,“ sagði Víðir hrærður við móttöku gjafarinnar. Við lok fundarins þakkaði hann svo fyrir gjöfina með því að senda framlínustarfsmönnum fingurkoss í gegnum myndavélina.

