Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra greindist með Covid-19 í gær.

„Hann er farinn að finna fyrir einkennum en þau eru enn sem komið er nokkuð væg. Þetta kom fram í svari Rögnvaldar Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns við fyrirspurn um líðan Víðis á upplýsingafundi almannavarna.

Ljóst er hvernig Víðir smitaðist en smitið er þó enn í rakningu. Rögnvaldur heyrði í Víði fyrir fundinn, hann sagðist vera nokkuð brattur og þakkaði öllum fyrir að koma á fundinn og hlusta á þau.

Smit kom upp í nærumhverfi Víðis síðdegis á mánudag og í kjölfarið fór hann í sóttkví. Jafnframt fór hann og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller, landlæknis og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis í sýnatöku. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld. Víðir fór aftur í sýnatöku í gær og reyndist sýni frá honum vera jákvætt.