Víðir Reynis­son, yfir­lögreglu­þjónn, Alma D. Möller, land­læknir og Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir syngja lagið „Ferðumst innan­húss“ á­samt úr­vals­liði ís­lenskra söngvara í nýju myndbandi sem kom út í kvöld.

Almannavarnadeild lögreglunnar hefur nú ítrekað hvatt Íslendinga til að halda sig heima fram yfir páskanna en ljóst er að ekki allir eru að fylgja tilmælum lögreglunnar.

Leifur Geir Hafsteinsson, sem samdi textann við lagið, vonar að það muni hjálpa til við að fá fólk til að halda sig heima. Hann flutti lagið upphaflega með Kristjáni Steini syni sínum á Face­book þann 29. mars. Í kjöl­farið kviknaði sú hug­mynd hjá honum að gera mynd­band af laginu í anda „We are the world“, safna saman stór­poppurum Ís­lands, fá þá til að taka höndum saman við og hamra heim skila­boðin: „Hlýðum Víði“ og „Ferðumst innan­húss.“

Myndbandið má sjá hér að neðan

Lagið sjálft er eftir Enrico Sbriccoli, Car­lo Pes, Fer­reira Sebastiao og Francesco Migli­acci, og heitir í upp­runa­legri út­gáfu Che. Það er hins vegar betur þekkt á Ís­landi sem „Góða ferð.“

Meðal þeirra sem koma fram í mynd­bandinu eru Birgitta Hauk­dal, Frið­rik Dór, Glowi­e, Greta Salóme, Helgi Björns­son, Hildur Vala, Ingó Veður­guð, Jóhanna Guð­rún, Jón Jóns­son, Jón Ólafs, Salka Sól, Sverrir Berg­mann og rapparinn Króli svo dæmi séu tekin.

Hall­dór Gunnar Páls­son, Fjalla­bróðir sá um tón­listar­stjórn, hljóð­færa­leik og fram­kvæmd á­samt Leifi Geir. Greta Salóme spilar á fiðlu í laginu á­samt því að syngja. Jón Ólafs­son spilar síðan á píanó og Kristján Steinn Leifs­son spilar á trompet.

Þátt­tak­endur hittust aldrei á meðan á ferlinu stóð og tóku allir upp sinn hluta heima hjá sér. Nú er bara að vona að þetta fram­tak nái til lands­manna og allir haldi sig heima um páskanna.