Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnarsviði ríkislögreglustjóra, er kominn í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í nærumhverfi hans.
Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í kvöld.
Fram kemur að Víðir hafi farið í sýnatöku í dag en ekki reynst smitaður. Hann fer í sjö daga sóttkví og aðra sýnatöku að henni lokinni.
Fleiri sem unnið hafa náið með Víði að undanförnu fóru einnig í sýnatöku í dag, þar á meðal Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, en þau sýni sem voru tekin reyndust vera neikvæð.
Víðir fór í sóttkví í september síðastliðnum eftir að hafa verið í samskiptum við einstakling sem var mjög smitandi þann dag sem hann hitti viðkomandi.
Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hér á landi er í rénun, en þrjú innanlandssmit greindust í gær. Alls eru tæplega 200 manns í einangrun vegna COVID-19 hér á landi.