Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, átti miða á þjóð­há­tíð en fer hvergi, frekar en þúsundir annarra sem áttu miða.

„Ég ætla að vera heima við bara og vonast til að geta dundað í garðinum. Ég ætla að spila eitt­hvað golf líka og svo verð ég að vinna. Það er svona það sem verður um helgina,“ segir Víðir.

„Ég ætla að vera heima við bara og vonast til að geta dundað í garðinum“

Að­spurður um verk­efnin í vinnunni segir víðir: „Það eru bara þessi verk­efni sem koma upp á hverjum einasta degi og við sem erum í þessu reynum að skipta því á milli okkar.“

Ertu kvíðinn fyrir helginni?

„Nei í sjálfu sér ekki, ég held við munum öll taka þetta skyn­sam­lega og förum bara var­lega meðan við erum að vinna í þessari ó­vissu,“ segir Víðir. Verk­efnið núna sé að ná utan um al­var­leikann í þessari bylgju.

„Við þurfum ein­hverja daga í við­bót meðan við erum að sjá það og svo förum við að horfa á hvernig við ætlum að vinna með þetta í fram­haldinu,“ segir Víðir og fer með möntruna sína: „Á meðan biðjum við bara alla að fara ró­lega.“

Að­spurður um við­búnað úti á landi segir Víðir lög­reglu­em­bættin úti á landi á­gæt­lega undir­búin fyrir fólks­fjölda á tjald­svæðum og um landið.

„Það sem menn gerðu mjög víða, var að fara yfir hlutina með staðar­höldurum mjög tíman­lega núna í vikunni. Bara spjalla saman og sjá hvort allir séu ekki með leið­beiningarnar og allt sem þarf til að halda helgina innan þeirra marka sem eru í gildi.“

Víðir segir lands­byggðina einnig þokka­lega búna undir mögu­legar skimanir.

„Á flestum stöðum eru fastir tímar fyrir það og fólk þarf að bóka það inni á heilsu­veru. Á minni heilsu­gæslu­stöðvunum er þetta kannski klukku­tími á dag. Og þar er yfir­leitt reynt að hafa eitt­hvað opið um helgar líka.“

Smitrakingarteymið: „Áægju­legustu sím­tölin hafa verið við unga fólkið"

Víðir segist engar á­hyggjur hafa af því að unga fólkið viti ekki hvernig það eigi að snúa sér ef smit kemur upp.

„Smitrakningar­teymið er búið að vera í miklum sam­skiptum við þennan aldur undir þrí­tugu af því það er stærsti hópurinn sem er að smitast núna. Þau eru að taka þessu svo vel og svo skyn­sam­lega og eru með allar reglurnar á hreinu,“ segir hann og bætir við:

„Þau sem þurfa að fara í sótt­kví, vita ná­kvæm­lega hvað þau eiga að gera og hvernig þau eiga að haga sér. Þetta er það sem unga smitrakningar­teymið segir: á­ægju­legustu sím­tölin hafa verið við unga fólkið.“