Ábúendur og eigendur sex jarða í Húnaþingi vestra segja varnarlínu sem á að hindra för riðuveiks sauðfjár milli svæða ekki vera fjárhelda.

„Á síðustu öld var ákveðið að Víðidalsá frá Síðukróki til árósa yrði varnarlína riðuveikivarna í Vestur-Húnavatnssýslu, þrátt fyrir ábendingar heimamanna sem þekkja til á svæðinu að þar væri ekki um neina vörn að ræða, fé færi yfir Víðidalsána á þessu svæði hvar og hvenær sem því sýndist,“ segir í bréfi heimamanna til yfirdýralæknis Matvælastofnunar.

„Enn er Víðidalsáin skilgreind sem varnarlína og hefur fé sem fer yfir þessa ímynduðu varnarlínu því verið réttdræpt,“ skrifa bændur. Síðast hafi komið upp riða í Víðidal á árinu 2007 og á Vatnsnesi á árinu 2021.

„Þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hver skal verjast hverju,“ segir hópurinn, sem vill að sett verði upp varnargirðing á vesturbakka Víðidalsár eða þá að varnarlínan verði hreinlega felld út.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra tekur undir kröfu bændanna.