Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, er hressari í dag en í gær en Rögnvaldur Ólafsson, sem er staðgengill Víðis á meðan hann er í einangrun vegna COVID-19, greindi frá málinu í samtali við Vísi.

Að sögn Rögnvalds var Víðir töluvert veikur í gær en leið honum betur þegar leið á daginn. „Ég heyrði í honum í gærkvöldi og þá var hann aðeins farinn að hressast og svo aftur í morgun, þá leið honum mun betur en í gær,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Vísi um málið.

Líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá greindist Víðir með kórónaveiruna síðastliðinn miðvikudag en hann hafði þá verið í sóttkví eftir að smit kom upp í nærumhverfi hans fyrr í vikunni. Í samtali við Fréttablaðið sagðist Víðir ekki finna fyrir einkennum þá.

„Þetta er eins og hvert annað verkefni. Það getur hver sem fengið þetta og spyr ekki að neinu. Hún er lævís og lúmsk þessi veira, eins og við höfum alltaf sagt. Þannig maður var undirbúinn, eins og hver annar, að geta fengið þetta,“ sagði Víðir um málið.