Um 40 prósent Íslendinga hafa neikvæðara viðhorf til Svíþjóðar en fyrir ári síðan, þegar heimsfaraldurinn var að festa rætur í Evrópu. Þar af hafa um 10 prósent mun neikvæðara viðhorf. En eins og flestir vita hafa Svíar farið sínar eigin leiðir í sóttvarnaaðgerðum og takmarkanir verið umtalsvert minni en í nágrannaríkjunum.

Þetta kemur fram í nýrri norrænni könnun Sænsku stofnunarinnar, sem heyrir undir utanríkisráðuneyti Svíþjóðar. Könnunin var framkvæmd undir lok síðasta árs og haft var samband við þúsund manns í hverju landi Norðurlanda utan Svíþjóðar. Niðurstöðurnar voru svipaðar í Noregi, Danmörku og Finnlandi.

Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, var hissa á niðurstöðunni. „Samband Svíþjóðar og Íslands er frábært,“ segir hann. Þó að viðhorfið í könnuninni sé svipað á Norðurlöndunum segir hann að neikvæðnin og núningurinn birtist með sterkari hætti milli fólks í Skandinavíu, sérstaklega Noregs og Svíþjóðar. Tugþúsundir Svía starfi á Oslóarsvæðinu og hafi ekki verið hleypt yfir landamærin.

„Ég er sannfærður um að viðhorfið gagnvart Svíþjóð lagist þegar faraldurinn er búinn,“ segir Pär. „Á milli Norðurlandanna eru miklir kærleikar.“

Flestir svarendur töldu viðbrögð Svía við COVID-19 faraldrinum helstu ástæðuna fyrir neikvæðara viðhorfi en áður. Stór hluti svarenda í Danmörku nefndi einnig að innflytjendamál og glæpir spiluðu stóra rullu í viðhorfi þeirra en almennt séð mældist viðhorfið í Danmörku jákvæðast. Vel innan við 10 prósent sögðust hafa jákvæðara viðhorf í garð Svíþjóðar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, segir þá neikvæðni sem kom í ljós hafa verið rædda.

„Sænskir þingmenn hafa sagt að það sé ákveðin Svíaandúð í gangi. Einkum á landamærasvæðunum.“

Silja segir hins vegar að þessi neikvæðni eða andúð birtist ekki í pólitísku samstarfi þjóðanna. „Í Norðurlandaráði höfum við einbeitt okkur að því að þétta raðirnar,“ segir hún. Í nóvember árið 2019 var samþykkt stefna um samfélagsöryggi og allt árið 2020 hafi verið lögð rík áhersla á hana á öllum fundum með ráðherrum Norðurlandanna. Hún segir samstarf og góð samskipti Norðurlandanna afar mikilvæg á tímum þegar vá steðjar að, ekki aðeins faraldrar, heldur náttúruhamfarir, hryðjuverk og fleiri ógnir.

„Við höfum lagt áherslu á að tengja stofnanir betur saman þannig að það endurtaki sig ekki aftur, eins og gerðist í upphafi faraldursins, að landamærum sé lokað án samráðs,“ segir Silja. Eins og Pär er Silja sannfærð um að sú andúð sem myndast hefur muni rjátlast af fólki þegar faraldrinum er lokið. „Faraldrinum fylgir mikil hræðsla og ekki að ósekju því fólk hefur dáið og eftirköstin eru alvarleg. Ég held og vona að þetta sé tímabundið ástand,“ segir Silja.