For­stöðu­maður far­sóttar­húsa Rauða krossins, Gylfi Þór Þor­steins­son, segist finna vel fyrir breyttu og jákvæðara við­horfi gesta sótt­kvíar­hótelsins á Foss­hóteli. Allir sýni fyrirkomulaginu nú skilning og hefur enginn gestanna mót­mælt því að þurfa að dvelja þar eða reynt að sleppa þaðan út með ein­hverjum hætti.

Fréttir bárust af því í morgun að lög­regla hefði hand­tekið ölvaðan ferða­mann á hóteli, sem hafði ekki fylgt fyrir­mælum um sótt­kví. Gylfi segir að ferða­maðurinn hafi ekki verið á sótt­kvíar­hótelinu og að ekkert sam­bæri­legt at­vik hafi komið upp hjá þeim. „Enginn af okkar gestum hefur verið hand­tekinn af lög­reglunni.“

Hann segir starf­semi hótelsins hafa gengið mun betur síðustu daga en í byrjun mánaðarins þegar það opnaði. Þá myndaðist mikil and­staða meðal nokkurra gesta við það að vera skyldaðir til að dvelja á hótelinu en eins og þekkt er fóru ein­hverjir með málið fyrir dóm. Héraðs­dómur komst að þeirri niður­stöðu að reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra sem skyldaði alla sem kæmu til landsins til að dvelja á sótt­kvíar­hóteli ætti sér ekki stoð í lögum.

Nýtt frum­varp var þá lagt fram og sam­þykkt á Al­þingi að­fara­nótt síðasta fimmtu­dags, sem veitti ráð­herranum heimild til þessa. Frá og með næsta þriðjudegi verður farþegum, sem koma til landsins frá svokölluðum hááhættusvæðum, að dvelja í sótt­kvíar­hótelinu. Ís­lendingar geta þó sótt um undan­þágu á þessu geti þeir sýnt fram á að þeir hafi hús­næði á eigin vegum þar sem þeir geti upp­fyllt öll skil­yrði sótt­kvíar eða ein­angrunar.

Íslendingar í uppreisn

Margir Ís­lendingar sem komið hafa til landsins síðan lögin tóku gildi hafa farið þessa leið, þó ein­hverjir dvelji nú á sótt­kvíar­hótelinu, að sögn Gylfa. Og það gæti skýrt bætt við­horf gestanna því Ís­lendingar voru í raun þeir einu sem settu sig upp á móti dvölinni þegar hótelið opnaði.

„Það var lang­mest ó­á­nægja með þetta frá Ís­lendingum. Ekki frá er­lendum ferða­mönnum. Þeir þekkja svona hótel bara frá sínum heima­löndum þar sem flest lönd eru með svipuð úr­ræði. Þannig þetta voru aðal­lega Ís­lendingar sem voru að setja sig upp á móti þessu,“ segir Gylfi.

„Það hefur alls ekki verið nein and­staða við þetta núna,“ heldur hann á­fram og veltir fyrir sér hvers vegna hún myndaðist til að byrja með. „Ég veit ekki hvort þetta var kannski vegna þess að reglurnar voru upp­runa­lega settar á til­tölu­lega fljótt og kannski höfðu ekki allir, sem þá komu til landsins, áttað sig á þeim.“

Eins og er dvelja um tvö hundruð manns á hótelinu. Í heildina hafa um þúsund manns farið í gegn um hótelið og að­eins tíu þeirra greinst með smit, að sögn Gylfa. „Það eru mjög fáir. En það er þó eitt­hvað því að þau smit hefðu getað dreifst sér víða ef við­komandi hefði ekki haldið sótt­kví.“