Sóttvarnarlæknir, yfirmaður sýkla og veirufræðideildar LSH og fleiri sérfræðingar funduðu í dag um ráðstafanir sem gera þarf hér á landi vegna apabólu sem nú er komin upp bæði í Svíþjóð og Noregi. Ekki er ljóst hverjar þær ráðstafanir verða á þessari stundu.
Guðrún Svanborg Hauksdóttir yfirmaður sýkla- og veirufræðideildar verður gestur á Fréttavaktinni í kvöld klukkan 18:30 í opinni dagskrá á Hringbraut þar sem rætt er um sjúkdóminn.
Veiran sem veldur apabólu er náskyld bólusóttarveirunni, en því var lýst yfir árið 1979 að bólusótt hefði verið útrýmt með öllu í heiminum og hætt var að bólusetja við henni. Guðrún Svanborg segir apabólu þó miklu vægari sótt en bólusótt.

Apabóla smitast nú ótvírætt milli manna, en talið er að fyrstu smitin hafi borist frá öpum yfir í menn, en það sem er nýtt er að bólan geti smitast frá manni til manns.
Meðgöngutími veikinnar er um 2 vikur. Fyrstu einkenni eru roði og útbrot sem síðan verða að vessafylltum blöðrum. Sjúkdómurinn hefur verið takmarkaður við Afríku en nú eru smit að berast manna á milli í Evrópu og víðar um heim.
