Íbúar í miðborg Reykjavíkur eru sumir gagnrýnir á viðveru sérsveitarjeppa í miðborginni, nánar tiltekið á göngugötu á Laugaveginum. Umræður eru um þetta á íbúahópi á Facebook en lögregla segir viðbúnað í miðbænum verða með sama móti um þessa helgi og síðustu.
Eins og greint hefur verið frá hefur lögregla síðastliðnu daga verið með aukna viðveru í miðborginni. Var það sérstaklega síðustu helgi eftir að skilaboð gengu manna á milli um meintar hefndarárásir vegna hnífstungu á Bankastræti Club sem myndu jafnvel beinast gegn almennum borgurum. Allt var þó með kyrrum kjörum síðustu helgi en fámennt í miðbænum.
Íbúi nokkur að nafni Arnar Guðmundsson birtir í gærkvöldi mynd af sérsveitarjeppa á Laugaveginum þar sem má sjá að bíllinn er með kveikt á bláu ljósunum.
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, er þetta grín? Risavaxnir eldsneytishákar með skærblá ljós akandi innan um gangandi á göngugötum. Og sitjandi svo með tækin í lausagangi án sjáanlegs neyðartilfellis,“ skrifar Arnar.
„Ég man þegar sýnileg löggæsla fólst í gangandi lögregluþjónum sem heilsuðu gestum og gangandi. Þessi framkoma minnir því miður meira á virka þátttöku í gengjaátökum en tilraun til að skapa öryggistilfinningu hjá vegfarendum og íbúum.“
Grímur Grímsson segir í samtali við Fréttablaðið að viðbúnaður lögreglu í miðbænum þessa helgi verði óbreyttur. „Þangað til annað verður gefið út.“
Einhverjir íbúar taka undir með Arnari, aðrir segja lögreglumenn einfaldlega vera að vinna sína vinnu. Hann segir „ferlíkið“ eins og hann kallar bílinn hafa ekið á undan sér á leið heim úr bíó og svo setið í lausagangi rétt ofan við Ingólfsstræti.
