Unglingsstúlku var bjargað undan snjó og mikið eignatjón varð er tvö snjóflóð féllu á Flateyri í fyrrakvöld. Stúlkunni var bjargað innan við klukkustund eftir að flóðið féll.

Talið er að meirihluti báta sem voru við höfnina sé ónýtur og tilkynnt hefur verið um tjón á húsum og fleiri munum í bænum.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni féll fyrra flóðið klukkan 23.03 og það seinna um fimmtán mínútum síðar.

Eyþór Jóvinsson, björgunarsveitarmaður á Flateyri, segir tilfinninguna þegar unglingsstúlkunni Ölmu Sóleyju Ericsdóttur Wolf var bjargað ólýsanlega.

„Það var alveg ótrúlegt þegar við svo fundum hana. Við vorum búnir að grafa og grafa, höfðum grafið upp stóla og ýmislegt þar sem við fundum fyrir mýkt í snjónum. Svo endum við á því að finna rúmið, gröfum okkur þangað niður og þar er hún blessunin,“ segir Eyþór.

Að sögn Eyþórs hefur ekki enn verið hafist handa við verðmætabjörgun. Starf björgunarsveita snúi aðallega að sálrænum stuðningi.

„Hér er auðvitað tjón upp á fleiri hundruð milljónir á skipum, bryggjum og mannvirkjum en bara það að við höfum náð henni á lífi, það gerbreytir öllu hérna,“ segir Eyþór.

Stuttu eftir að snjóflóðin féllu á Flateyri féll snjóflóð í Súgandafjörð til móts við Suðureyri. Við flóðið skall flóðbylgja á höfninni í bænum og bátar slitnuðu frá. Tjón þar liggur ekki fyrir.

Bæði flóðin sem féllu á Flateyri fóru að hluta yfir varnargarðinn ofan við bæinn. Hefur Halldór Halldórsson sem á sæti í Ofanflóðasjóði gagnrýnt hversu lítill hluti fjármagns sem rennur í sjóðinn árlega sé notaður í uppbyggingu varna.

„Það blasir við að snjóflóðavarnir skiptu sköpum í þessum hamförum í fyrrinótt. Við sem þjóð munum aldrei fyrirgefa okkur það ef líf tapast vegna hamfara á skilgreindum hættusvæðum,“ segir Halldór.

Ljóst er að áfallið hefur mikil áhrif á bæjarbúa. Segir Edda Björg Þórðardóttir, nýdoktor í lýðheilsufræðum, að mikilvægt sé að fólki sé veittur bæði góður félagslegur og tilfinningalegur stuðningur. „Við berum ábyrgð á því sem samfélag hvernig fólki vegnar eftir samfélagsleg áföll,“ segir Edda.

Enn var í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum og hættustig vegna snjóflóða á Ísafirði í gærkvöldi. Á Flateyri og Ísafirði voru hús rýmd.

„Við munum ekki aflétta óvissustigi, hættustigi eða rýmingu á svæðin nema að snjóflóðahætta minnki umtalsvert,“ segir Auður Kjartansdóttir á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands.

Í dag eru 25 ár frá því að fjórtán létu lífið í snjóflóði á Súðavík. Í lok október það sama ár fórust tuttugu í snjóflóði á Flateyri.

Grafík/Fréttablaðið