„Þetta er í takti við þær breytingar sem hafa átt sér stað í okkar samfélagi. Hingað til hafa menn í valdastöðum komist upp með að beita ofbeldi án afleiðinga og án þess að horfast í augu við að þeir sjálfir séu að beita ofbeldi,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og doktor í afbrotafræði, um mál Vítalíu Lazareva sem hefur sakað þjóðþekkta menn um að hafa brotið á sér.

Ari Edwald, Hreggviður Jónsson, Logi Bergmann Eiðsson, Arnar Grant og Þórður Már Jóhannesson létu annað hvort af störfum eða fóru í tímabundið leyfi í gær vegna ásakana Vítalíu Lazareva. Vítalía sagði að brotið hefði verið á sér í sumarbústaðaferð árið 2020. Hún nafngreindi mennina á Instagram í haust, Vítalía ræddi svo um málið í hlaðvarpsþættinum Eigin konur fyrr í vikunni.

Fram kom í tilkynningu Hreggviðs til fjölmiðla í gær að hann harmi að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem Vítalía lýsti. „Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu,“ segir í yfirlýsingu Hreggviðs.

Ekki allir enn með samþykki á hreinu

Margrét segir upplifun hans ekki koma á óvart. „Það er enn þannig að það eru ekki allir með á hreinu að það þarf skýrt samþykki að liggja fyrir öllum kynferðislegum verknaði, annars er það ofbeldi, þannig eru lögin,“ segir hún.

„Ég hef lengi fylgst með málum sem þessum og það hefur oft verið þannig að gerendur neiti eða ásaki þolendur um athyglissýki eða að þær séu að hefna sín. Það hefur verið tekið gott og gilt, sérstaklega ef þeir eru í valdamikilli stöðu en nú vita menn að þessi mál fara ekki neitt. Þolendum er trúað. Þessi mál frá athygli og viðhorf almennings hefur breyst.“

Margrét tekur eftir því að í þessu máli er drusluskömm hvergi nærri. „Það hefur dregið úr henni. Í þessu máli þá vitum við það í dag að konur bera ekki ábyrgð á því ofbeldi sem þær verða fyrir og fleira fólk áttar sig á því að það skiptir engu máli hvernig hún var klædd eða ekki, það þarf alltaf samþykki,“ segir hún.

„Bara þetta, að þarna eru menn af þessu tagi, sem stíga strax til hliðar og eru ekki að neita fyrir að þetta hafi gerst, það er nýtt. Það er orðið skýrt að hitt gengur ekki, það hefði gengið fyrir tíu árum en það gengur ekki lengur.“