Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, er nýr leiðtogi breska Íhaldsflokksins og tekur við af Boris Johnson sem forsætisráðherra Bretlands í dag. Hún vann sigur í lokavali meðlima Íhaldsflokksins á næsta flokksleiðtoga með 81.326 atkvæðum gegn 60.399 sem Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, hlaut.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, var fyrstur erlendra þjóðarleiðtoga til að senda Truss hamingjuóskir eftir að sigur hennar í leiðtogavalinu lá fyrir. „Til hamingju með nýja hlutverkið, Liz Truss!“ skrifaði Scholz. „Ég hlakka til samstarfs okkar á þessum erfiðu tímum. Bretland og Þýskaland munu áfram vinna náið saman – sem félagar og vinir.“

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, óskaði Truss einnig til hamingju og sagði Frakka reiðubúna til að starfa með henni sem bandamenn og vinir. Þá sagði Macron að ríkin tvö yrðu að starfa náið saman í orkumálum, sér í lagi á sviði kjarnorkuiðnaðarins.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands,

Vil ekki segja að hlutirnir gætu breyst til hins verra

„Ég vil ekki segja að hlutirnir gætu breyst til hins verra, því það er erfitt að ímynda sér neitt verra,“ sagði Dmítríj Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, aðspurður hvort hann byggist við því að breytingar yrðu á samskiptum Rússlands og Bretlands með valdatöku Truss. Peskov sagðist þó ekki bjartsýnn þar sem frambjóðendur til embættis forsætisráðherra Bretlands hefðu keppst um að vera sem fjandsamlegastir í garð Rússa.

Viðbrögð leiðtoga á Írlandi og Norður-Írlandi við sigri Truss voru blendin. Stjórnarkreppa hefur ríkt frá síðustu kosningum á Norður-Írlandi þar sem flokkar lýðveldissinna og sambandssinna hafa ekki komið sér saman um sameiginlega stjórn.

Michelle O’Neill, leiðtogi lýðveldisflokksins Sinn Féin á Norður-Írlandi, sagði að Truss yrði að hætta allri „meðvirkni“ með sniðgöngu sambandssinna á stjórnarmyndunarviðræðum. „Hún ætti að hætta orðagjálfrinu og glannalegum hótunum sínum um að brjóta alþjóðalög og ganga aftur að borðinu til að ræða við ESB um lausnir svo að viðskipti okkar geti lifað við stöðugleika.“

Michelle O’Neill, leiðtogi lýðveldisflokksins Sinn Féin á Norður-Írland.
Fréttablaðið/Getty

Óskaði Truss til hamingju en gagnrýndi flokk hennar um leið

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og bresku stjórnarandstöðunnar, óskaði Truss til hamingju en gagnrýndi flokk hennar um leið. „Eftir tólf ár af stjórn Íhaldsmanna höfum við ekki haft annað upp úr krafsinu en lág laun, hátt verð og kreppu í framfærslukostnaði. Aðeins Verkamannaflokkurinn getur komið á því nýja upphafi sem landið þarfnast.“

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur býst ekki við því að Truss muni njóta langra hveitibrauðsdaga eftir að hún tekur við embætti „Hennar hveitibrauðsdagar verða stuttir og munu ganga út á að endurstilla flokkinn fyrir næstu kosningar,“ segir hann.

„Það er í rauninni þá fyrst sem á hana reynir því að það er líka erfitt að verða forsætisráðherra án þess að hafa verið kjörinn til embættisins,“ bætir Eiríkur við.

Þá segir hann það einnig eftirtektarvert að Truss er þriðji kvenkyns forsætisráðherra Bretlands og þriðji kvenkyns leiðtogi Íhaldsflokksins. „Á meðan Verkamannaflokkurinn hefur aldrei boðið fram konu í forystusæti,“ segir Eiríkur.