Fulltrúar viðbragðs- og öryggisstétta innan vébanda BSRB funduðu á miðvikudag um kjaramál og styttingu vinnuvikunnar. Ekki hefur verið stofnað eiginlegt félag en áfram verður fundað fyrir næstu kjaralotu, einkum og sér í lagi vegna óánægju stéttanna með útfærslu á styttingu vinnuvikunnar.

„Þetta var óformlegt spjall. Við erum að undirbúa okkur fyrir kjaraviðræður og viljum vera tímanlega í þessum,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna. En ásamt lögreglumönnum voru fulltrúar slökkviliðs og sjúkraflutningamanna, tollgæslumanna, gæslumanna úr Landhelgisgæslunni og fangavarða. Kjarasamningar þessara stétta losna í mars á næsta ári.
„Þetta var fyrsti fundur og það munu verða fleiri. Það eru klárlega sameiginlegir hagsmunir,“ segir Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, LSS. „Þetta eru lítil félög inni í stóru félagi. Það er hollt fyrir þessa aðila að hittast og ræða stöðuna, þó að ekki séu stofnuð ný samtök.“

Rótin að þessum viðræðum er stytting vinnuvikunnar úr 40 tímum niður í 36 eða jafnvel 32, sem var eitt helsta baráttumál BSRB fyrir síðustu kjarasamninga en reynst hefur flókið fyrir sumar vaktavinnustéttir í framkvæmd. Takmarkið var að stytta vaktir úr 12 niður í 8 tíma, en það hefur ekki alls staðar gengið eftir.

Ríkislögreglustjóri áætlaði að ráða þyrfti 75 lögreglumenn til að mæta styttingunni sem tók gildi í maí síðastliðnum. Stjórnvöld hafa lofað ráðningum en efndir gengið hægt og lögreglumenn kvarta undan auknu álagi eftir breytinguna.


Hjá LSS hefur styttingin aðeins verið framkvæmd á einum stað, Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Annars staðar var henni frestað til 1. maí næstkomandi. „Við treystum okkur ekki í þetta verkefni í upphafi og frestuðum innleiðingunni,“ segir Magnús. Tíminn hefur verið nýttur til fundahalds með rekstraraðilum og verkefnisstjórn styttingarinnar. Eitt slökkvilið hefur síðan komist að ásættanlegri niðurstöðu.
Í fangelsunum þarf að ráða í 27 stöðugildi, en ríkið hefur boðið 15. Þetta hefur orsakað að algengara er að einn vörður sé á vakt, sem er talið óæskilegt öryggisins vegna, bæði hans sjálfs og fanga.
Þá hefur óánægja meðal landamæravarða og tollgæslumanna verið mikil með útfærslu styttingar­innar. Vöktum hefur verið fjölgað og sumar eru aðeins sex tímar, sem leitt hefur af sér gríðarlegt óhagræði fyrir starfsfólk. Þá hefur einnig verið deilt um vaktaálagið.


„Styttingin hefur gengið svolítið erfiðlega hjá þessum stéttum. Þær þurfa að vera með mönnun allan sólarhringinn. Útfærslan hefur gengið illa af því að það hefur reynst erfitt að fylla mönnunargatið,“ segir Fjölnir.
„Stytting vinnuvikunnar var grundvallar kerfisbreyting og hefur ekki gengið fullkomlega upp alls staðar. Það þarf að sníða vankanta af framkvæmdinni,“ segir Magnús. Félagsmenn þessara félaga hafi hagsmuni af því að þau lífsgæði sem styttingin átti að fela í sér náist.