Karlmaður hefur hlotið þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að veist að konu með þeim afleiðingum að hún hlaut viðbeinsbrot og mar víðs vegar um líkamann.

Málið var tekið fyrir í júní og dæmt þann 17. ágúst síðastliðinn í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa hrint konunni, slegið hana í andlit, slegið hana ítrekað með beltissylgju og sparkað undan henni fótunum þannig að hún féll á hægri öxl og viðbeinsbrotnaði. Hún hlaut sömuleiðis mar og yfirborðsáverka á höfði, úlnlið, hendi, öxl, upphandlegg, baki og fótlegg og sár í munni og munnholi og á kvið.

Konan leitaði til lögreglu í lok maí 2020 vegna árásarinnar sem hún kvaðst hafa orðið árið 2015 þegar hún og gerandinn voru sambýlisfólk. Maðurinn hafi komið fullur heim og hún beðið hann um að yfirgefa íbúðina, en hún var þá búin að komast að framhjáhaldi af hálfu hans og vildi slíta sambandinu. Brást hann við með því að kýla hana í andlitið, slá hana með beltissylgju sinni og sparkað undan henni fótunum. Hún lá grátandi á gólfinu og maðurinn fór að sofa.

Í dómnum kemur fram að konan hafi ekki viljað leggja fram kæru í fyrstu þar sem hann hafi heilaþvegið hana með andlegu ofbeldi. Hún hafi þó leitað á bráðamóttöku og átti því læknisvottorð um áverka sem hún hlaut og mat læknis um að áverkarnir væru eftir líkamsárás. Sömuleiðis leitaði hún til miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

Dómari í málinu taldi framburð þolanda stöðugan og dæmdi manninn í þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm.