Ný íslensk rannsókn bendir til að magn kólesteróls í fæðu hafi áhrif á kólesteról í blóði og líkur á kransæðasjúkdómum, meðal annars hjartaáföllum. Þá geta svokallaðir plöntusterólar, sem bætt er í margar heilsuvörur, stuðlað beint að æðakölkun.

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólks þeirra innan íslenska heilbrigðiskerfisins, Háskóla Íslands, Copenhagen Hospital Biobank og danska blóðbankans. Grein um rannsóknina birtist í vísindaritinu European Heart Journal á dögunum og var hún meðal annars lofuð í hástert í leiðara blaðsins.

Læknarnir Anna Helgadóttir og Hilma Hólm leiddu rannsóknina hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rannsóknin snérist meðal annars að svokölluðum plöntusterólum sem er efni sem líkist kólesteróli og finnst í jurtaafurðum eins og ávöxtum og grænmeti, baunum og hnetum.

„Það er þekkt að neysla plöntusteróla leiðir til lækkunar kólesteróls í blóði. Því hafa menn dregið þá ályktun að fyrst að kólesteról lækkar þá hljóti líkurnar á kransæðasjúkdómum einnig að minnka. Plöntusterólar hafa verið markaðsettir sem efni sem spornar gegn hjarta- og æðasjúkdómum og því eru ýmsar heilsuvörur með viðbættum plöntusterólum,“ segir Hilma. En niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að það geti verið varhugavert.

„Þessir plöntusterólar geta verið skaðlausir í mjög litlu magni en ef þú tekur inn mikið magn þá fara neikvæðu áhrifin af plöntusterólunum sjálfum að vega þyngra en kosturinn af því að lækka kólesteról,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann segist afar stoltur af þessari góðu vinnu sem liggur að baki rannsókninni. „Þetta er að mörgu leyti ofboðslega skemmtilegt því rannsóknin lætur kannski lítið yfir sér en skilaboðin hafa svo almenna og breiða tilvísun. Það er enn einu sinni verið að segja okkur að við verðum að hafa ákveðið jafnvægi í fæðu okkar og margt af því sem er verið að bæta við fæðu okkar er ekkert sniðugt,“ segir Kári.

En rannsóknin leiddi annað mikilvægt atriði í ljós. Nefnilega að bein tengsl eru milli þess magns af kólesteróli sem þú færð úr fæðunni og kólesteróls í blóði. „Það er vel þekkt að erfðir og umhverfi, til dæmis mataræði, hafa áhrif á kólesteról í blóði. Menn eru nokkuð sammála um að neysla á mettaðri fitu, dýrafitu, eykur kólesteról í blóði en það hafa verið skiptar skoðanir síðustu ár um hvort að það að borða kólesteról auki kólesteról í blóði. Í þessari rannsókn sýnum við með erfðafræðinni að bein tengsl eru þar á milli,“ segir Hilma.

Þessi tengsl sjáist með því að skoða erfðabreytileika sem hafa áhrif á virkni ákveðinna ferjuprótína sem stjórna því hversu mikið af kólesteróli og plöntusterólum sogast úr fæðunni og fer út í blóðið. Þeir sem eru með minna virkt ferjuprótein frásoga meira af kólesteróli og plöntusterólum úr fæðunni og því er kólesteról í blóði þeirra hærra og meiri líkur á að þeir fái hjartaáfall.

„Fólk frásogar mismikið af kólesterólinu sem það borðar. Ef tveir aðilar gera sömu breytingar á sínu matarræði með tilliti til mettaðrar fitu og kólesteróls þá hefur það ekki endilega sömu áhrif á kólesterólið í blóðinu,“ segir Hilma.