Viðar Guðjohnsen, sem kennir sig við harðlínu hægri, hefur árum saman talað fyrir fjölkvæni. Mest á Útvarpi Sögu þangað sem hann hringdi í morgun og sakaði Björn Leví Gunnarsson og Pírata um að hafa stolið hugverki hans og afbakað með frumvarpi um fjölkvæni.

Viðar bað Pétur Gunnlaugsson, umsjónarmann símatíma Útvarps Sögu, að virða við sig hversu óðamála hann væri áður en hann sagði Pírata líklega vera búna „að stela hugverki harðlínunnar“ en Viðar hefur löngum skilgreint sig sem harðlínu hægrimann.

„Þetta er hreinn bara hugverkastuldur. Það er þetta með fjölkvænið. Björn Leví er að setja fram frumvarp núna um það að leyfa fjölkvæni,“ sagði Viðar, sem á að baki misheppnað framboð í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og var fyrsti maður inn í morgun þegar Pétur opnaði fyrir símann á Útvarpi Sögu.

Harðlínan trompuð

Pétur svaraði Viðari fyrst með spurningu: „Er þetta grín eða er alvara sem hvílir á bak við þessa tillögu?“ Viðar róaðist lítið við þessar efasemdir og spurði Pétur, sem lögfræðing, hvernig maður snýr „sér í svona glæpsamlegum hlutum?“

Pétur lagði þá til að Viðar gengi einfaldlega til liðs við Pírata til þess að fylgja fjölkvænishugmyndum sínum eftir.

„Nei, heyrðu. Þetta átti að vera okkar aðal tromp núna. Fyrir næstu kosningar,“ sagði Viðar. „Þetta eru ræningjar eins og þeir segja sjálfir, Píratar. Þeir eru búnir að ræna hugverki annarra flokka,“ svaraði Viðar og spurði á móti hvort rétta aðferðin væri þá „að ganga bara til liðs við bófana?“

Viðar vísaði síðan til laga og réttar um hugverk og tónlistarmenn sem „háskæla ef eitthvað er stolið af þeim,“ sem dæmi máli sínu til stuðnings.

„Fjölkvænismálið var eitt af okkar málum og mun verða áfram okkar mál en nú er búið að klúðra því. Þeir afbaka náttúrlega líka hugverkið á bak við þetta,“ sagði Viðar sem endurtók í framhaldinu tilbrigði við kunnugleg stef þar sem kjarni málsins er að fjölkvæni geti auðveldað þeim sem eru „hraustir og ríkir“ að eignast fleiri börn.