Við vorum eins og dýr í búri, segir Viðar Eggertsson leikstjóri um dvöl sína og tvíburasystur sinnar Bjarkar á Vöggustofunni Hlíðarenda við Sunnutorg á sjötta áratugnum. Systkinin komu þangað aðeins 17 daga gömul og voru vistuð þar þangað til að þau voru tveggja og hálfs árs.

Móðir þeirra Hulda Kristinsdóttir sem nú er látin var einstæð móðir og bjó við bágar aðstæður félagslega, en gat svo loksins tekið börnin aftur til sín þegar þau voru á þriðja ári og hún búin að vinna baki brotnu við að koma þaki yfir höfuðið.

Í einlægu viðtali sem sýnt var á Fréttavaktinni í kvöld segir Viðar frá reynslu sinni og hvaða áhrif dvölin hafði á hann og systur hans. Hann gagnrýnir harðlega hvernig farið var með börnin á þessari stofnun en ekki mátti sýna þeim umhyggju og þau voru höfð í rimlarúmum í dauðhreinsuðum hvítum herbergjum segir hann.

Viðar segir að stéttaskipting þess tíma hafi komið vel í ljós í tengslum við rekstur vöggustofunnar sem og pólitík en málið var tekið fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur á þessum tíma án þess að nokkuð væri aðhafst.

Mörg ef ekki flest þeirra barna sem þarna dvöldu hafi borið skaða af ævilangt.

Fjallað verður um Vöggustofumálið á Fréttavaktinni á Hringbraut mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöld og hefst þessi hluti Fréttavaktarinnar klukkan 18:40.