„Við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera við barnið okkar og getum ekki brúað þetta bil lengur. Þetta er bara ör­vænting sem leiðir til þess að við erum hér,“ segir Kristín Tómas­dóttir, fjögurra barna móðir og skipu­leggjandi mót­mæla sem nú standa yfir í Ráð­húsi Reykja­víkur.

Kristín efndi til mót­mælanna vegna úr­ræða­leysis sem ríkir í mál­efnum þeirra barna sem bíða eftir að komast inn á leik­skóla. Mót­mælin hófust klukkan 08:45 í morgun.

Hafði engar áhyggjur

Yngsta barn Kristínar er að verða 18 mánaða og segir hún í sam­tali við blaða­mann að hún hafi í raun ekki haft miklar á­hyggjur af því þó barnið hefði ekki fengið út­hlutað plássi.

„Við ætluðum bara að brúa bilið fram á haust og vorum búin að fá lof­orð um að börn 12 mánaða og eldri myndu örugg­lega fá pláss, þannig að ég hafði engar á­hyggjur af mínu 18 mánaða barni.“

Kristín segir að eftir mikinn þrýsting og læti hafi þau fengið pláss á Ævin­týra­borgum við Naut­hóls­veg í haust en stað­reyndin er sú að ó­víst er hve­nær þær opna.

„Þau geta ekki gefið okkur svör. Við vitum að það er búið að vera draga fólk á asna­eyrunum, alltaf verið að fresta opnun þannig að við bara treystum því ekki. Fyrir utan það er ekki nógu gott að fá pláss um miðjan októ­ber og jafn­vel byrjun nóvember.“ Kristín segir að hún og fjöl­margir for­eldrar séu í þeim sporum að geta ekki lengur brúað þetta bil.

Mynd/Lovísa Arnardóttir

Vandinn hafi bara versnað

Kristín er sem fyrr segir fjögurra barna móðir og elsta barn hennar þrettán ára. Hún segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hún horfist í augu við þetta vanda­mál og ef eitt­hvað er hafi vandinn að­eins versnað.

„Þetta er ein­mitt í fjórða sinn sem ég lendi í þessu en ég held jafn­vel að þetta sé orðið verra. Ég hef alla­vega aldrei boðað til mót­mæla áður þannig að þetta hefur alltaf verið gríðar­lega mikið vesen.“

Að­spurð segist hún vonast til þess að mót­mæla­fundurinn skili sér í því að for­eldrar fái lausnir.

„Það er of­boðs­lega mikið búið að út­skýra þetta fyrir okkur og við skiljum alveg að þetta er flókið vanda­mál og fjöl­þætt og allt það. En þetta er ekki ó­leysan­legt vanda­mál. Nú viljum við að borgar­ráð grípi tafar­laust til ein­hverra lausna af því að borgar­stjórn fundar ekki fyrr en í septem­ber og það er bara orðið of seint fyrir okkur. Það þarf bara að gera eitt­hvað núna,“ segir hún.

Foreldrar tilbúnir í allskonar lausnir

Hún bætir við að margt af þessu strandi á fram­kvæmdum og verk­tökum en í hópi for­eldra sé fullt af verk­tökum sem geta ekki unnið störfin sín.

„Þetta bitnar á at­vinnu­lífinu og kemur bara út í öðrum kerfum,“ segir hún og bætir við að for­eldrar séu til­búnir í alls­konar lausnir, jafn­vel lausnir sem áður þóttu ó­á­kjósan­legar. „Kannski þurfum við að gefa eitt­hvað eftir með ó­fag­lært starfs­fólk, kannski þurfum að við opna leik­skóla án þess að lóðir séu til­búnar. Við erum bara opin,“ segir Kristín að lokum.