Dr. Erla Björnsdóttir svefnsérfræðingur er meðal gesta í fyrsta þætti Heilsubrautar. Erla veitir áhorfendum innsýn í heim svefnsins og svarar meðal annars einni grundvallarspurningu um tilgang svefnsins.

„Þetta er stór spurning og ekkert einfalt svar við henni. Það er rosalega mikið að gerast í líkama og heila þegar við sofum og svefninn er rosalega virkt ástand,“ segir Erla. „Við erum að endurnýja frumur líkamans. Það er mikil viðgerðarstarfsemi í gangi, eins og við séum að skella líkama og heila á verkstæði yfir nóttina. Mikil úrvinnsla,“ segir hún.

Erla útskýrir að sá sem sefur vinni úr öllum áreitum dagsins, öllu sem hann heyrir, sér og lærir. „Við erum að fara í gegnum þessar upplýsingar. Flytja upplýsingar úr skammtímaminni yfir í langtímaminni. Það er mikil hreinsunarstarfsemi,“ segir hún. „Við erum að losa út allskonar úrgangsefni og eiturefni sem hlaðast upp í líkama og heila yfir daginn. Það má segja að tilgangur svefnsins sé viðgerð, endurnýjun og uppbygging, fyrst og fremst. Ásamt því að hvíla okkur og endurnæra,“ segir Erla.

„Við vitum að svefnleysi er algengast aðfaranótt mánudags, sem helgast oft af því að við höfum ruglað rútínunni yfir helgina, sofið kannski lengi frameftir á sunnudegi, erum kannski ekki orðin nægilega þreytt á sunnudagskvöldi, náum ekki að sofna og komum þreytt inn í vikuna. Besta forvörn gegn svefnvanda er regla og rútína.“

Heilsubraut er á dagskrá alla þriðjudaga klukkan 19:30.