Klara Ósk Elíasdóttir segir frá árunum í NYLON og The Charlies í helgarblaði Fréttablaðisins. Þegar Klara flutti með stelpunum í The Charlies til Bandaríkjunum biðu þeirra stórir draumar sem rættust ekki eins og þær hefðu óskað sér.

„Svo gerist það að tónlistin okkar kemst inn á borð hjá umboðsmanni í Bandaríkjunum og hann verður ástfanginn af verkefninu,“ segir Klara.

The Charlies flytja til Bandaríkjanna árið 2009 og skrifa undir plötusamning við risastórt plötufyrirtæki. „Þetta var eins og í bíómynd,“ segir Klara.

„Við löbbum þarna inn og syngjum fyrir yfirmann risa plötu fyrirtækis og hann býður okkur samning á staðnum. Þetta tíðkaðist ekki og var síðan notað sem einhversskonar dæmi um hvað við værum góðar. Að okkur hefði verið boðinn samningur á staðnum. En þessi samningur var hræðilegur og það tók okkur ár að komast út úr honum,“ bætir Klara við.

Þegar skrifað hafði verið undir samninginn leit allt vel út. Plötufyrirtækið setti mikinn peninginn og tíma í The Charlies, þær tóku upp plötu en þegar það kom að því að velja hvaða lag ætti að koma út fyrst var allt sett til hliðar.

„Þegar það er verið að velja fyrsta „single“ af plötunni fer allt að dragast. Okkar umboðsmanni kemur illa saman við fólkið hjá plötufyrirtækinu og þau eru pirruð á honum og allskonar leiðinleg pólitík stóð í vegi fyrir að hlutirnir gengju vel fyrir sig,“ útskýrir Klara.

„Allt í einu segjast þau hjá plötufyrirtækinu ekki tilbúin að skuldbinda sig í að gefa út þetta lag alveg strax, það eigi að bíða með það fram yfir jól en þetta var um haustið. Það segir okkur enginn beint að þetta þýði að platan komi ekki út en við vissum að þetta var dauðadómur,“ segir Klara.