Bensínstöð Orkunnar í Suðurfelli í Breiðholti hefur verið römpuð upp og er fyrsta bensínstöðin á landinu sem er aðgengileg fyrir hreyfihamlaða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkunni.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags íslands og Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, tóku fyrstu tvo rampana í formlega notkun í gær en meðal breytinga er hækkun á stétt í kringum þrjár bensíndælur og greiðsluvélar færðar neðar. Þá hafa bílastæðin verið breikkuð og allt aðgengi að og inn í verslanir á staðnum verið rampaðar upp. Sjálfvirkir hurðaopnar hafa verið settir að verslun og þjónustu, aðgengi að salernum bætt og borðum í réttri hæð komið fyrir í verslunum.

Margrét Lilja segir bensínstöðina mikilvægan þátt í að veita hreyfihömluðum einstaklingum sama rétt til sjálfstæðs lífs og öðrum.

„Það er magnað að fá að taka þátt í svona flottu verkefni. Við viljum öll geta verið virkir þátttakendur í daglegu lífi, þar á meðal að geta sinnt venjulegum hlutum eins og að fylla á tankinn.“

Þorleifur Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Römpum upp Ísland, segir það gleðiefni að vitundarvakning að aðgengi hreyfihamlaðra sé farin að teygja sig til annarra þátta samfélagsins.

„Þegar við hleyptum verkefninu af stað einbeittum við okkur að verslunar og veitingarýmum, en þökk sé þrautseigju og frumkvæði annarra erum við farin að sjá rampa á öðruvísi stöðum, eins og til dæmis þessari bensínstöð,“ segir Þorleifur.

.

Bensínstöð Orkunnar í Suðurfelli í Breiðholti hefur verið römpuð upp og er fyrsta bensínstöðin á landinu sem er aðgengileg fyrir hreyfihamlaða.
Mynd/Orkan