Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir víðs vegar í Kína seinustu daga í kjölfar eldsvoða sem varð tíu manns að bana í borginni Urumqi í Xinjiang héraði í seinustu viku. Mótmælendur kenna hörðum sóttvarnarreglum um að ekki hafi náðst að bjarga íbúunum í tæka tíð, en það tók um þrjá klukkutíma að slökkva eldinn.

Mótmælin eru þau útbreiddustu sem hafa átt sér stað í Kína í meira en þrjá áratugi, eða síðan stórfelld mótmæli voru barin niður á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Yfirvöld í borginni Urumqi hafa tilkynnt að þau muni milda sóttvarnarreglur í kjölfar brunans en hafa ekki enn gefið út nákvæma tímalínu.

Mótmælin fara nú fram í að minnsta kosti sex kínverskum stórborgum, þar á meðal borginni Wuhan þar sem Covid-19 átti upptök sín fyrir þremur árum síðan. Sumir mótmælendur hafa kallað eftir afsögn Xi Jinping forseta og að kommúnistaflokkurinn láti einfaldlega af völdum.

Í gær mátti einnig sjá stór mótmæli í borginni Chengdu í suðvestur Kína þar sem mótmælendur héldu á auðum hvítum blöðum, en mótmælendur í Kína eru farnir að gera það til að komast fram hjá ritskoðun. Á samfélagsmiðlum mátti sjá myndbönd af íbúum í Chengdu hrópandi: „Við viljum ekki ævilanga leiðtoga, við viljum ekki keisara,“ og er það tilvísun í Xi Jinping sem lét fjarlægja takmarkanir á setu leiðtoga landsins á valdastóli árið 2018.