Enn hefur leit yfir­valda í Ástralíu að hinni fjögurra ára Cleo Smith engan árangur borið. Eftir því sem dögunum líður aukast á­hyggjur af því að Cleo hafi verið numinn á brott í stað þess að hún hafi ráfað burt sjálf.

Í gær var greint frá því í er­lendum miðlum að allt að 20 kyn­ferðis­brota­menn væru skráðir með bú­setu nærri Blowho­les tjald­svæðinu þar sem að Cleo hvarf snemma morguns á laugar­dag.

Fjöl­margir hafa tjáð sig um málið undan­farna daga, þar á meðal rann­sakandi á hvarfi Madelein­e Mc­Cann og af­brota­fræðingur sem reglu­lega fjallar um gömul mál í þættinum History Cold Case á BBC.

Mikilvægt að útiloka fjölskylduna sem fyrst

Graham Hill, fyrrum rann­sakandi á hvarfi Maddi­e Mc­Cann, sagði í við­tali við ástralska fjöl­miðla að fyrstu skrefin í að rann­saka hvarf á barni væru að greina hvað fjöl­skyldan segir við lög­reglu og að skilja hvernig sam­setning lög­reglunnar er. Þetta sagði Hill í við­tali vegna hvarfs hinnar fjögurra ára Cleo Smith sem hvarf spor­laust af tjald­svæði í vestur­hluta Ástralíu að­fara­nótt laugar­dags, 16. októ­ber.

„Þetta þarf að gera mjög fljót­lega,“ sagði Hill í við­tali og sagði að þótt þetta væri erfitt fyrir for­eldrana þá væri töl­fræðin þannig að það sé oftast ein­hver ná­komin börnunum sem brýtur á þeim.

„Auk þess verðurðu að eyða gruni í kringum for­eldrana áður en þú getur haldið á­fram og skoðað aðra mögu­leika,“ sagði Hill.

Hefðu verið ummerki eftir svefnpokann

Hann sagði að það væri mikil­vægt að sem fyrst væru allir skoðaðir sem voru ná­lægt tjald­svæðinu, alla bíla sem voru þar og að allir viti að það sé verið að fylgjast með þeim vegna þess að bæði gætu þau verið grunuð eða vitni í málinu.

Hill segir að það geti verið já­kvætt fyrir rann­sókn málsins að hún hafi horfið á fá­mennu tjald­svæði því þá hafi rann­sak­endur meiri tíma, það séu færri til að rann­saka.

Hann sagði að ung börn hverfi yfir­leitt ef þau ráfa burtu sjálf, ef þau lenda í slysi eða ef þeim er rænt.

„Við verðum að muna að Cleo er bara lítil stúlka, hún kemst ekki svo langt,“ sagði Hill í tengslum við ef hún hefði ráfað burtu sjálf og að ung börn þreytist fljótt, sér­stak­lega um miðja nótt.

Hann sagði helstu flækju málsins vera í kringum það að svefn­poki Cleo hvarf með henni og að það væri mjög ó­lík­legt að hún hefði ráfað í burtu með svefn­pokann sinn með sér. Auk þess, hefði það gerst, væru ein­hver um­merki eftir það að hún hefði dregið hann með sér.

Líklega tekin

Af­brota­fræðingurinn Xantha Mal­let tók í sama streng og Graham í við­tali í gær þar sem hún sagði ó­lík­legt að Cleo hefði ráfað svo langt í burtu frá tjald­svæðinu að hún hefði ekki enn fundist. Það hafi verið leitað í um fimm kíló­metra radíus frá tjald­svæðinu, en hún ekki fundist.

„Nú verðum við að hugsa um mögu­leikann á því að hún hafi verið tekin,“ sagði Mal­let í við­tali við Daily Mailen þar má einnig sjá fjölda mynda af Cleo með fjöl­skyldunni sinni.

Heyrðu ekkert

Fjöl­skyldan kom á um­rætt tjald­svæði síð­degis á föstu­dag og fór Cleo í háttinn um átta leytið, skömmu eftir að fjöl­skyldan hafði borðað kvöld­mat. Síðar fóru for­eldrar hennar í háttinn og yngri systir Cleo, Isla. Elli­e segir að Cleo hafi vaknað um hálf tvö leytið að­fara­nótt laugar­dags og fengið sér að drekka. Hún sofnaði svo skömmu síðar en var svo á bak og burt um morguninn. For­eldrar hennar urðu ekki varir við neitt ó­venju­legt í milli­tíðinni.

Elli­e hefur enga trú á því að Cleo hafi vaknað og ráfað sjálf­viljug burt frá tjaldinu. Hún hafi ekki lagt í vana sinn að vera dug­leg að ganga eða hjóla og hún hefði látið for­eldra sína vita af sér ef hún hefði vaknað. Sjálf eru þau Elli­e og eigin­maður hennar, Jake Glidd­on, kunnug stað­háttum enda ólust þau upp skammt frá tjald­svæðinu. Hafa þau leitað um allt svæðið á­samt fjöl­mennum leitar­flokkum, en án árangurs.

Þegar Cleo hvarf var hún í rauðum náttfötum. Lögreglan deildi þessari mynd af henni eftir að hún hvarf.
Fréttablaðið/EPA

Hlýtur einhver að vita

For­eldrar Cleo opnuðu sig fyrr í vikunni um hvarfið og sögðu að það hlyti ein­hver að vita hvað kom fyrir Cleo.

„Það hlýtur ein­hver að vita hvar hún er,“ sagði Elli­e, móðir hennar, og sagði að þau vonuðu að hún væri enn ein­hvers staðar ná­lægt.

„Við viljum bara fá litlu stelpuna okkar heim,“ sögðu þau í við­talinu sem er hægt að horfa á hér.